Mánudagur, 4. ágúst 2008
Erlend blöð róast við uppgjör bankanna
Breska viðskiptablaði Financial Times fjallar í dag um árshlutauppgjör íslensku bankana og segir þau sýna, að ekki sé ástæða til að óttast kerfisbundna fjármálakreppu á Íslandi. Uppgjörin sýni raunar að alþjóðleg efnahagsniðursveifa hafi haft sín áhrif á afkomu bankanna en þó ekki afgerandi.
Blaðið segir, að óttast hafi verið að íslensku bankarnir myndu lenda í erfiðleikum vegna þess að alþjóðleg lausafjárkreppa hefur gert það að verkum að lánsfé er orðið mun dýrara en áður. Þetta kynni að koma sérstaklega illa við íslensku bankana vegna þess að þeir hefðu aðalleg fjármagnað hraða og alþjóðlega útrás sína með erlendu lánsfé.
Þessar áhyggjur hafi síðan leitt til þess, að skuldatryggingarálag íslensku bankanna hefur hækkað verulega að undanförnu og var komið yfir 1000 punkta.
Financial Times segir að uppgjör bankanna fyrir annan ársfjórðung bendi hins vegar ekki til þess að hrun sé yfirvofandi. Þvert á móti sýni þau að bankarnir hafi brugðist við breyttri stöðu með ýmsum hætti, m.a. að auka áherslu á innlán.
Vísbendingar séu þó um að lánasafn bankanna sé að hrörna og greiðslur á afskriftarreikninga hafi aukist. Hins vegar sé eiginfjárhlutfall bankanna áfram hátt og lausafjárstaðan góð og þeir séu búnir að tryggja sér fjármögnun fyrir næsta ár. (mbl.is)
Það er gott,að erlend viðskiptablöð róast við uppgjör ísl.bankanna. Þau munu þá væntanlega ekki skrifa óhróður um bankana nú eins og áður. Og vonandi lækkar skuldatryggingarálag bankanna nú þegar tiltölulega gott árshlutauppgjör hefur séð dagsins ljós.
Björgvin Guðmundsson
Uppgjör bankanna slá á áhyggjur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta voru svo sannarlega góðar fréttir, þrátt fyrir að stór hluti "hagnaðar" bankanna megi rekja til verðtryggingar og vaxtaokurs á okkur sauðsvörtum almúganum.
Ég hef nú reyndar verið einn af bjartsýnismönnunum, sem trúa að næsta vetur verði þessi "kreppa" að mestu yfirstaðin. Ég hef hreinlega enga trú á að ESB, BNA, Japan og Kína standi aðgerðalaus hjá á meðan heimskreppa ríður yfir. Ég held að menn séu nú aðeins sjóaðri í áföllum nú en 1929-30.
Hjá okkur Íslendingum munu áhrifin af virkjunarframkvæmdum fyrir álverið í Helguvík og vonandi síðar á Bakka slá á hættuna og hjálpa okkur við að ná mýkri lendingu en ella.
Það eina sem er að óttast er mjög hörð lending í byggingabransanum, sem er algjört sjálfsskaparvíti. Líti maður í kringum sig eru tóm fjölbýlishús út um allt. Kannski kennir þetta bönkunum og byggingaverktökum smá hófstillingu og minni græðgi í framtíðinni.
Guðbjörn Guðbjörnsson, 4.8.2008 kl. 11:00
Þetta er lærdómsríkt.
Júlíus Valsson, 4.8.2008 kl. 14:19
Sjálfsagt er ástæða að hægja álversframkvæmdum. Þessi biti sem nú er, Kárahnjúkavirkjun + stórt álver á Reyðarfirði hefur haft mjög slæm áhrif á suma þætti efnahagslífs okkar. Ferðaþjónustan og útgerð fóru t.d. mjög illa út úr allt of háu gengi krónunnar.
Fyllsta ástæða er því að ganga hægt um gleðinnar áldyr! Hráefnaframleiðsla á borð við áliðnað er ekki það sem þessi þjóð vanhugar mest um. Ætli það sé ekki að skynja betur aðstæður eins og þær eru í heiminum. Álverin geta enn gíoðan veðurdag verið háð nákvæmlega sömu örlögum og önnur starfsemi sem nú þykir vera auðvirðuleg.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 4.8.2008 kl. 20:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.