Miðvikudagur, 20. ágúst 2008
Eðlilegt að veita Georgíu aðild að NATO
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sat í gær sérstakan aukafund utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins í Brussel þar sem fjallað var um ástand mála í Georgíu og viðbrögð bandalagsins við hernaðaraðgerðum Rússa í landinu.
Á fundinum samþykktu ráðherrarnir sameiginlega pólitíska yfirlýsingu þar sem lýst er yfir fullum stuðningi við vopnahléssamkomulagið sem forsetar Georgíu og Rússlands undirrituðu fyrir tilstuðlan formennsku Frakka í Evrópusambandinu, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og Bandaríkjanna. Ráðherrarnir ítrekuðu mikilvægi þess að sjálfstæði og landamæri Georgíu væru að fullu virt og hörmuðu fall óbreyttra borgara.
Í yfirlýsingunni er átökunum í Suður-Ossetíu lýst sem ógn við svæðisbundið öryggi, og eru Rússar hvattir til að standa við gefin loforð og kalla herlið sitt frá Georgíu nú þegar og tryggja að neyðaraðstoð komist til skila án tafar. Í því samhengi lýsa utanríkisráðherrar NATO áhyggjum sínum yfir nýlegum fregnum þess efnis að rússneskt herlið sé enn að valda eyðileggingu í Georgíu.
Full samstaða náðist meðal bandalagsríkja um aðgerðir til stuðnings Georgíu, einkum innan ramma núverandi samstarfs NATO og Georgíu. Ráðherrarnir ítrekuðu yfirlýsingu leiðtogafundar bandalagsins í Búkarest, frá því í apríl sl., um Georgíu. Einnig var ákveðið að stofna til viðræðna við stjórnvöld í Georgíu um að setja á fót sérstaka NATO-Georgíunefnd.
Þá átaldi bandalagið Rússland fyrir að beita óhóflegu vopnavaldi og áréttaði mikilvægi þess að rússnesk stjórnvöld virtu þau gildi sem ríkja í samskiptum Rússlands og NATO.
Ég fagna því að NATO skuli hafa tekið málin í Georgíu föstum tökum og að bandalagið skuli hafa átalið Rússa fyrir að beita óhóflegu vopnavaldi í Georgíu.Besta svarið við árás Rússa á Georgíu væri að veita landinu ( Georgíu) aðild að NATO sem fyrst.Hins vegar þarf að endurskoða allt samstarf NATO við Rússa í skjóli síðustu atburða.NATO getur ekki látið Rússa ráða því hvort Georgía fær aðild að NATO eða ekki.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.