Miðvikudagur, 27. ágúst 2008
Verðbólgan æðir áfram.Komin í 14,5%!
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,9% í ágúst frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði einnig um 0,9% frá júlí. Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 14,5% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 14,6%. Verðbólgan hefur ekki mælst jafn mikil í 18 ár eða frá júlí 1990 er hún var 15,5%. Er þetta minni hækkun vísitölunnar heldur en greiningardeildir bankanna spáðu en spá þeirra hljóðaði upp á 1-1,1% hækkun á milli mánaða.
Greiningardeildir Kaupþings og Glitnis spáðu 1,1% hækkun vísitölu neysluverðs í ágúst en greiningardeild Landsbankans spáði 1% hækkun vísitölunnar.
Samkvæmt frétt á vef Hagstofu Íslands lækkaði verð á bensíni og olíum um 3,9% (vísitöluáhrif -0,2%) en verð á mat og drykkjarvörum hækkaði um 1,8% (0,23%). Sumarútsölum er að ljúka og hækkaði verð á fötum og skóm um 4,7% (0,19%).
Kostnaður vegna eigin húsnæðis lækkaði um 0,3% (-0,06%). Þar af voru áhrif af lækkun markaðsverðs -0,11% en áhrif af hækkun raunvaxta voru 0,05%. Þá hækkaði verð á efni til viðhalds húsnæðis um 6,3% (0,25%).
Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,8% sem jafngildir 11,5% verðbólgu á ári (10,9% fyrir vísitöluna án húsnæðis).
Greiningardeild Landsbankans telur að 12 mánaða verðbólga nái hámarki í ágúst en að hratt dragi úr verðhækkunum þegar útsölulok eru gengin yfir og krónan hefur brotist úr gengislækkunarfasa síðustu mánaða. Greiningardeildin á von á því að verðbólga mælist 12% frá upphafi til loka þessa árs.
Greining Glitnis á von á því í september að vísitala neysluverðs hækki hraustlega á milli mánaða en á þó von á að árshækkun vísitölunnar taki að minnka lítillega milli mánaða og að verðbólgan verði ríflega 12% í upphafi næsta árs.
Greiningardeild Kaupþings telur að gera megi ráð fyrir að vísitala neysluverðs hækki áfram næstu þrjá mánuði en ef gengi krónunnar staðnæmist mun töluvert hægja á verðbólgunni í framhaldinu.(mbl.is)
Hin mikla verðbóla er nú orðin öllum mikið áhyggjuefni.Hækkun verðbólgunnar hækkar greiðslur af lánum og veldur því fólki mikilli kjaraskerðingu af þeim sökum og vegna mikillar hækkunar á vöruverði. Ríkisstjórnin getur ekki lengur setið aðgerðarlaus. Hún verður að gera ráðstafanir gegn verðbólgunni. Það þýðir ekki lengur að segja að hún fari að lækka. Hún gerir það ekki,.
Björgvin Guðmundsson
Verðbólgan 14,5% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:04 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.