Laugardagur, 6. september 2008
Leggjum Bjölluvirkjun til hliðar
Enn hefur Landsvirkjun tekist að fá náttúruverndarsinna marga hverja upp á móti sér. Nú hafa spurst út áform um að setja Bjallavirkjun inn á lista fyrir rammaáætlun um virkjunarkosti, sem stjórnvöld eru að vinna að. Virkjunin er rétt norðan við friðlandið að Fjallabaki, í Tungnaá ofan Sigöldustöðvar.
Með því að stífla Tungnaá myndast miðlunarlón í farvegi árinnar, allt að 30 ferkílómetrar, og telst það svæði vera á náttúruminjaskrá. Gæti slík virkjun framleitt árlega um 46 MW.
Unnið hefur verið að frumhönnun síðustu mánuði og var Náttúrufræðistofnun fengin til að fara yfir vistfræði og þá náttúrufarsskoðun sem hafði áður farið fram á svæðinu. Bjallavirkjun er nefnilega ekki ný hugmynd. Hún hefur verið til í hirslum Landsvirkjunar frá árinu 1980 þegar hún varð hluti af svonefndri mynsturáætlun Orkustofnunar.
Fyrstu hugmyndir gerðu þá ráð fyrir mun stærra miðlunarlóni og því yrði miðlað um opna skurði í inntakslón og þaðan til stöðvarhúss. Átti sá virkjunarkostur að geta útvegað allt að 70 MW. Sú Bjallavirkjun þótti hins vegar ekki hagkvæmur kostur og ekki samkeppnishæf við aðrar virkjanir sem þá voru til skoðunar. Áformin voru lögð til hliðar.
Fyrir fáum árum fóru verkfræðingar Landsvirkjunar að gefa þessum möguleika gaum á ný, m.a. með því að notast meira við jarðgöng. Hið nýja miðlunarlón, Tungnaárlón, nýtist að auki fleiri virkjunum, bæði í Tungnaá og Þjórsá, og Landsvirkjunarmenn telja lónið spila vel með Þórisvatni.
Að sögn Eysteins Hafberg, verkfræðings hjá Landsvirkjun, þótti sjálfsagt að reyna að koma þessum kosti að í þeirri rammaáætlun um virkjunarkosti sem verið er að vinna að. Hann segir að Bjallavirkjun megi líkja við virkjanir í neðri hluta Þjórsár, þ.e. Urriðafoss-, Hvamms- og Holtsvirkjun. Þó að hún sé ekki stór geti hún reynst ágætis búbót og góð söluvara fyrir mögulega raforkukaupendur ef sátt næst um hana.
Rammaáætluninni er ætlað að raða upp þeim virkjunarkostum sem í boði eru. Hljóti Bjallavirkjun náð fyrir augum þeirra sem um áætlunina fjalla er ekki þar með sagt að hún verði reist. Við tekur verkhönnun, umhverfismatsferli og vinna við framkvæmdaleyfi og útboðsgerð sem allt gæti tekið nokkur ár.
Andstæðingar virkjana geta ekki sakað Landsvirkjun um að ætla að leyna þessum virkjunarkosti. Í tengslum við undirbúning að rammaáætlun hafa áformin verið gerð opinber en spurt er hvort þau séu sett fram af fullri alvöru. Miðað við staðsetningu Bjallavirkjunar og nálægð við friðland og vinsæla ferðamannastaði á borð við Landmannalaugar benda viðmælendur Morgunblaðsins á að afar ólíklegt megi teljast að áformin gangi í gegn. Þau séu meira sett fram til að beita þrýstingi á að ná fram öðrum kostum.
Meðal þeirra sem á þetta benda er Bergur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landverndar. Hann gerir fyrst og fremst athugasemd við staðsetninguna og nálægðina við friðlandið að Fjallabaki og Vatnajökulsþjóðgarðinn. Um þennan kost náist aldrei sátt, í anddyri Landmannalauga.(mbl.is)
Þetta svæði er alltof viðkvæmt frá náttúruverndar sjónarmiði.Ég tel því að leggja eigi Bjölluvirkjun til hliðar.Samfylkingin vill ekki að' virkjað sé á oröskuðum svæðum.
Björgvin Guðmundsson
Gamall virkjunarkostur hringir bjöllum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.