Fimmtudagur, 11. september 2008
Hvað líður framfærsluviðmiði lífeyrisþega?
Í tengslum við gerð nýrra kjarasamninga í feb. sl. lýsti Jóhanna Sigurðardóttir,félagsmálaráðherra, því yfir,að hún hefði óskað eftir því að gerð framfærsluviðmiðs lífeyrisþega yrði hraðað. Hefði hún lagt fyrir endurskoðunarnefnd almannatryggingalaga,að þetta viðmið yrði tilbúið 1.júlí. Ekki hefur það enn verið birt.
Ég tel víst,að framfærsluviðmið aldraðra og annarra lífeyrisþega hafi verið tilbúið á tilsettum tíma hjá þeim embættismönnum,sem unnu að því.En stjórnvöld hafa af einhverjum ástæðum ekki viljað birta það enn. Þau draga birtingu þess á langinn. Það er síðan önnur saga,að það er mikið vafamál að það eigi að láta fámennan hóp embættismanna á vegum félagsmálaráðherra semja framfærsluviðmið. Þetta er svo mikilvægt verkefni,að það hefði átt að láta hlutlausan aðila eins og Hagstofuna eða Neytendastofu semja framfærsluviðmið.Þessar stofnanir hafa allar upplýsingar til þess. Það gengur ekki að hópur embættismanna búi til eitthvert lágmarksframfærsluviðmið sem notað verði til þess að þrýsta lífeyri aldraðra niður.
Hagstofan hefur kannað reglulega meðaltalsneysluútgjöld heimilanna í landinu.Niðurstaðan sýnir hvað mikið þarf til neyslu að meðaltali.Skattar eru ekki í þessum tölum svo þetta sýnir ekki hvað mikið þarf til framfærslu í heildina.Félag eldri borgara í Reykjavík óskaði eftir því,að nýtt framfærsluviðmið yrði miðað við neyslukönnun Hagstofunnar. Þeirri skoðun var komið á framfæri við félagsmálaráðherra. Samfylkingin sagði það sama fyrir kosningar. Hún vildi miða við neyslukönnun Hagatofunnar. 60+ ,samtök eldra fólks í Samfylkingunni samþykkti það sama. Spurningin er sú hvort farið verði eftir óskum eldri borgara eða hvort fáir embættismenn eiga að ráða þessu.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Björgvin og þakka þér fyrir að halda stöðugt uppi vörnum fyrir okkur eldra fólk. Tek af einlægni undir það sem þú skrifar hér að ofan um nauðsyn þess að fá vel unnin framfærsluviðmið fyrir eldri borgara. Ég skynja þetta þannig, að þú gerir ráð fyrir að niðurstaðan gæti orðið til stuðnings því áliti að skattleysismörk séu orðin alltof neðarlega, að langt til of mikið sé tekið í skatt af þeim tekjum, sem við þurfum til nauðþurfta. Með þeirri verðlagsþróun, sem hefur verið upp á síðkastið, mættu skattleysismörk alls ekki vera lægri en sem svarar kr. 130.000 hið minnsta. En það tekur Jóhönnu sjálfsagt talsverðan tíma að þrífa upp framsóknarskítinn úr félagsmálaráðuneytinu, þurfandi á sama tíma að berjast við dýralækninn.
Ellismellur (IP-tala skráð) 11.9.2008 kl. 09:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.