Mánudagur, 22. september 2008
Aðgerðir í USA höfðu áhrif á Íslandi
Aðgerðir bandarískra stjórnvalda til þess að spyrna fótum við kreppunni sem ríkir á fjármálamörkuðum hafa haft góð áhrif á fjármálamarkaði heims, þar á meðal þann íslenska. Spurningin er hins vegar hversu lengi munu aðgerðirnar hafa jákvæð áhrif, segir í grein sem birtist á vef Wall Street Journal í dag undir fyrirsögninni Fárviðri á fjármálamarkaði nær til Íslands, eða Financial Storm Reaches Iceland".
Segir í greininni að stjórnvöld á Íslandi og eftirlitsaðilar á fjármálamarkaði hafi alltaf trúað því staðfastlega að íslenska hagkerfið væri nægjanlega sterkt til þess að standa af sér niðursveilu þá sem ríkir á mörkðum heims, jafnvel þó að krónan hafi látið undan árásum og bankarnir hafi þurft að greiða hátt verð fyrir lánsfé.
Hins vegar hafi sú mikla þensla sem einkennt hefur íslenskt athafnalíf inn á erlenda markaði og ójafnvægi í vöruskiptum, sem sýni að Íslendingar, lifi umfram efni, haft þau áhrif að Ísland virki eitrað" í hvert skipti sem alþjóðlegir markaðir ganga í gegnum erfiðleika.
Kemur fram í greininni að frá því erfiðleikarnir hófust á lánsfjármarkaði sumarið 2007 hafi krónan fallið mjög gagnvart evru. Skuldatryggingaálag íslensku bankanna hafi rokið upp úr öllu valdi og hafi nú farið yfir 10% úr því að vera 1% síðasta sumar. Áhrifa af boðuðum aðgerðum bandarískra stjórnvalda á föstudag hafi skilað sér strax inn á íslenskan markað þar sem krónan hafi styrkst um 3% gagnvart evru og 2% gagnvart Bandaríkjadal á meðan litlar breytingar urðu á skuldatryggingaálagi íslensku bankanna.
Í grein WSJ er haft eftir Lars Christensen, sérfræðingi hjá Danske Bank, að í ljós eigi eftir að koma hvort boðaðar aðgerðir endurveki traust á fjármálamörkuðum heims en í löndum eins og Íslandi, Tyrklandi, Suður-Afríku og Ungverjalandi, skipti skuldastaðan einnig miklu.
Eftir mikinn vöxt í nokkur ár vakti orðrómur um stöðutöku vogunarsjóða gagnvart íslensku krónunni efasemdir meðal fjárfesta, samkvæmt grein WSJ. Þar er einnig fjallað um þá miklu verðbólgu sem ríki á Íslandi og háa stýrivexti. Samspil verðhækkana og mjög harðrar peningamálastefnu hafi valdið neytendum erfiðleikum á sama tíma og bankarnir glími við verra aðgengi að lánsfé.
Björgvin Guðmundsson
J
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.