Fimmtudagur, 25. september 2008
Gjaldskrá Orkuveitu hækkar um 9,5%
Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, boðar harða launabaráttu í komandi kjarasamningum. 9,5% hækkun gjaldskrár Orkuveitu Reykjavíkur sé tillaga um jafn mikla almenna launahækkun, og hann segir Alþýðusambandið líta á samninga við ljósmæður sem tillögu ríkisins um 21% launahækkun.
Guðmundur segir stjórnmálamenn verða að átta sig á að þeir geti ekki ætlast til þess, að launafólk axli ábyrgð með því að fá engar launahækkanir á meðan þeir vaði fram með hækkandi gjaldskrár. Margir kjarasamningar losna næstu daga og í næsta mánuði.
Miðstjórn Alþýðusambandsins kom saman á Egilsstöðum í gær. Efnahagsmálin og komandi kjarasamninga bar hátt í umræðum á fundinum, segir Guðmundur Gunnarsson, þar hafi ýmislegt nýtt komið fram. Borgarstjórn Reykjavíkur leggi til 9,5% launahækkun með tillögu sem lögð hafi verið fram í gær því með því að hækka gjaldskrá hitaveitunnar um 9,5% sé það tillaga um launahækkun. Fjármálaráðherra hafi lagt til 21% launahækkun um daginn og skálað hafi verið fyrir því í kampavíni í Karphúsinu. Mörgum launamönnum hafi verið ögrað með því, segir Guðmundur. Borgarstjórn leggi til meðaltillögu upp á 9,5% launahækkun og að það sé viðbúið að menn vinni út frá þessum tölum.
.
Ríkisstjórnin hafi hafnað því að tala við verkalýðsfélögin um það. Hún hendi bara út reyksprengjum, upphrópunum og fullyrðingum þegar menn leggi eitthvað til, segir Guðmundur. Þegar það komi síðan tillaga um launahækkun eins og þær sem fram hafi komið þá hlusti menn á það. (ruv.is)
Ég undrast hækkun gjaldskrár Orkuveitunnar um 9,5%. Ríkisstjórnin hefði átt að stuðla að því með samningum,að gjaldskrár yrðu óbreyttar,þar eð eins og Guðmundur segir er hætt við,að hækkanir gjaldskrár fari beint út í launin. Í öllu falli leiðir hækkunin til aukinnar verðbólgu. Ríkisstjórnin verður að beita handafli til þess að sporna gegn aukinni verðbólgu og það þarf að lækka verðbólguna hressilega.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:03 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.