Föstudagur, 26. september 2008
Krónan skilin eftir munaðarlaus!
Sé rétt haft eftir efnahagsráðgjafa forsætisráðherra að stjórnvöld hér sækist ekki eftir aðgengi að lánalínum hjá seðlabanka Bandaríkjanna, hafa þau skilið krónuna eftir munaðarlausa á víðavangi, segir Ólafur Ísleifsson, lektor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík. Þetta valdi því að krónan falli eins og steinn með skelfilegum afleiðingum fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu.
Sé þetta stefna Seðlabankans, beri ríkisstjórninni umsvifalaust að setja stjórn bankans af og gefa yfirlýsingu um að þetta sé ekki hennar stefna.
Tryggvi Þór Herbertsson, efnahagsráðgjafi forsætisráðherra, segir í Fréttablaðinu í dag að lánalínur á borð við þær sem Seðlabankar Norðurlandanna sömdu um við seðlabanka Bandaríkjanna séu óþarfar hér. Aðalatriði sé að slíkar lánalínur, sem eiga að greiða fyrir gjaldeyrisviðskiptum, séu ekki það sem sóst hafi verið eftir.
Ólafur Ísleifsson undrast mjög þessi ummæli. Meginvandinn hér sé að krónan falli eins og steinn og verðbólgan æðir áfram. Þegar yfirlýsing kemur um að menn hafi ekki gripið líflínu sem Bandaríkjamenn hafi kastað hingað, og nágrannþjóðir okkar hafi gripið, er það yfirlýsing um að stjórnvöld hvorki geti né hreinlega vilji bjarga krónunni, segir Ólafur.
Ólafur segir fall krónunnar í morgun standa í beinu sambandi við þessi ummæli efnahagsráðgjafans, markaðurinn hafni þessari stefnu algjörlega. Krónan sé skilin eftir munaðarlaus á berangri. Hann segir þetta raunar vart geta verið rétta lýsingu á afstöðu Seðlabanka Íslands. Ef svo væri, væri fullkomið tilefni að leysa bankastjórn Seðlabankans frá störfum nú þegar, segir Ólafur. Og hann segir ljóst að þetta ástand geti ekki haldið áfram; ríkisstjórnin hljóti að gefa út skilyrðislausa yfirlýsingu um að það sé ekki hennar stefna að verja ekki gjaldmiðilinn hér, að verja ekki fjármálastöðugleikann hér og að verja ekki markmiðin í verðlagsmálum.(ruv.is)
´EG undrast nokkuð,að Ísland skyldi ekki taka þátt í samstarfi Norðurlanda við seðlabanka Bandaríkjanna og fá lánalínu þaðan.Það hlýtur þá að vera að Ísland hafi einhver önnur ráð uppi í erminni sem upplýst verði um fljótlega.Ólafur Ísleifsson er mjög harðorður um afstöðu Íslands þessu máli og segir fall krónunnar i morgun beinlínis stafa af þessari afstöðu.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.