Sunnudagur, 5. október 2008
SA vilja,að sótt verði um aðild að ESB
Erlendur gjaldeyrir einn og sér dugir ekki til að leysa efnahagsvandann, þetta er samdóma álit þeirra sem fréttastofan hefur rætt við í dag. ESB aðild verði að koma til. Staðan er mjög alvarleg, segir Arnar Sigurmundsson formaður landssamtaka lífeyrissjóða. Á fundum í allan dag hefur verið rætt um aðkomu lífeyrissjóðanna að lausn efnahagsvandans.
Fulltrúar Samtaka atvinnulífsins hafa komið til funda með lífeyrissjóðunum og í nánast hverju horni húss launþegasamtakanna við Sætún í Reykjavík hafa verið haldnir fundir. Klukkan sex gengu menn á fund ríkisstjórnarinnar með tillögur sínar. Enginn býst þó við niðurstöðu í dag, ekki heldur á morgun.
Heimildarmenn fréttastofu herma, að aðilar vinnumarkaðarins ræði það í fullri alvöru, að ríkisstjórnin verði að gefa út afgerandi yfirlýsingu, fyrir opnun markaða á mánudag, að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu og myntbandalaginu.
Ekki er búist við niðurstöðu fyrr en langt verði liðið á morgundaginn, jafnvel ekki fyrr en aðra nótt.
Það stendur í mönnum hvernig eigi að halda á því að lífeyrissjóðirnir flytji erlendan gjaldeyri sinn inn í landið og með hvaða skilyrðum. Um er að ræða allt að tvö hundruð milljarða króna.
Launþegahreyfingin og vinnuveitendur eru á því að sú aðgerð ein og sér sé langt frá því að nægja til að leysa gjaldeyris- og efnahagsvanda þjóðarinnar og miklum mun meira verði að koma til, ef takast megi að ávinna Íslendingum aftur glatað traust á fjármálamörkuðum heimsins.
Enginn er enn sem komið er tilbúinn að segja fyrir um hvaða niðurstaða geti náðst, en meðal þess sem heimildarmenn fréttastofu segja vera skilyrði fyrir flutningi fjárins til Íslands er, að bankarnir leggi að minnsta kosti jafn mikið fram til gjaldeyrisforðans og sívaxandi þungi er í kröfunni um að stjórnvöld lýsi því yfir strax eftir helgi að Ísland muni sækja um aðild að Evrópusambandinu.
Fyrir því eru færð þau rök, að efling gjaldeyrisforðans ein og sér dugi skammt, það sé í rauninni eins og að rétta fíkniefnasjúklingi einn skammt enn. Það lækni hann ekki, hann verði að fara í meðferð. Þess vegna verði að koma til afgerandi aðgerðir, sem skapi traust á íslenskt efnahagskerfi á ný, það sé ekki hægt nema með aðild að stærra myntkerfi sem ráði við að vera bakhjarl gríðarlegra erlendra skulda þjóðarbúsins. Öll vötn falli nú til Dýrafjarðar, engin leið sé til önnur en aðild að Evrópusambandinu.
Fundur ASÍ og Samtaka atvinnulífsins með ríkisstjórninni hófst laust fyrir klukkan fjögur í Ráðherrabústaðnum. Klukkan 16:15 kom svo Davíð Oddsson Seðlabankastjóri í ráðherrabústaðinn en hann sagðist aðeins vera að ræða við forsætisráðherra, ekki koma beint að fundinum með SA og ASÍ. Þá komu Eiríkur Jónsson formaður Kennarasamband Íslands, Guðlaug Kristjánsdóttir formaður BHM og Elna Katrín Jónsdóttir formaður Félags framhaldsskólakennara á fundinn.(ruv.is)
Samtök atvinnulífsins vilja,að það verði hluti af heildarlausn að sækja um aðild að ESB. ASÍ mun jákvætt gagnvart þeirri tillögu.Það er mjög líklegt,að ákvörðun af hálfu Íslands um að sækja um aðild að ESB mundi hafa mjög jákvæð áhrif á íslenskan fjármálamarkað,jafnvel þó samningsniðurstöður yrðu lagðar undir þjóðaratkvæði.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.