Íslendingar kvarta undan Bretum við NATO

Íslendingar óskuðu eftir því á fundi NATO-ráðsins í gær að salurinn yrði rýmdur þannig að þar sætu aðeins fastafulltrúar aðildarríkjanna og framkvæmdastjóri bandalagsins.

Eftir að salurinn hafði verið rýmdur tók Þorsteinn Ingólfsson, fastafulltrúi Íslands hjá NATO, til máls og gerði harða hríð að Bretum. Hann sagði Breta hafa misnotað hryðjuverkalöggjöf sína gegn Íslandi og valdið landinu miklu tjóni. Taldi hann aðgerðir Breta ógna öryggi þjóðarinnar í víðtækum skilningi.

Hugsanlegt fjögurra milljarða evra lán Rússa til Íslands mun einnig hafa komið til umræðu á þessum fundi. NATO mun lítt hrifið af þeim möguleika.

Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, sagði í samtali við fréttastofuna að þótt ekki sé algengt að fundir séu lokaðir hjá NATO-ráðinu gerist það þó öðru hvoru ef þurfi að ræða sérstaklega viðkvæm mál. Slíkt gerist einnig hjá öðrum alþjóðasamtökum eins og til dæmis Evrópusambandinu.

Morgunblaðið segir að eftir fundinn hafi Jaap de Hoop Scheffer hringt í Geir H. Haarde, forsætisráðherra og þeir rætt málið. Ekki hefur verið upplýst hvað þeim fór í milli. (visir.is)

 

Það var vel  til fallið að kvarta formlega hjá NATO yfir Bretum. Þeir hafa hagað sér fólskulega við Íslendinga sem eru með þeim í NATO. Íslendingum gramdist þegar Bretar sendu  herskip á okkur í þorskastríðinu.En það er ekki síður ástæða til þess að reiðast nú,þegar þeir beita hryðjuverkalögum gegn okkur.

Björgvin Guðmundsson



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband