Föstudagur, 31. október 2008
Bæta þarf hag heimilanna og gera sérstakar aðgerðir í húsnæðismálum
Ingibjörg Sólrún ræddi efnahagsmálin á alþingi í gær..Hún sagði m.a.:
Verkefnið framundan er bæði brýnt og margslungið en í stuttu máli má skipta því í fernt:
Í fyrsta lagi aðgerðir til að bæta hag heimilanna, í öðru lagi aðgerðir til að styrkja stöðu fyrirtækja og forða þeim frá gjaldþrota, í þriðja lagi aðgerðir sem lúta að því að skapa hér skilyrði fyrir heilbrigt samfélag í framtíðinni, og loks aðgerðir sem lúta að því að gera upp með heiðarlegum hætti þá atburði sem leiddu til kollsteypu íslenska fjármálakerfisins.
Eitt brýnasta verkefni næstu daga er að hrinda í framkvæmd markvissum aðgerðum í þágu heimilanna í landinu. Leita þarf allra leiða til að draga úr gjaldþrotum einstaklinga og fyrirtækja en jafnframt að rýmka ákvæði í gjaldþrotalögum, til að þeir sem verða gjaldþrota komist sem allra fyrst á réttan kjöl á ný.
Við þurfum að grípa til sérstakra aðgerða í húsnæðismálum, bjóða upp á greiðsluaðlögun húsnæðislána sem gefa því fólki sem á þarf að halda aukið svigrúm í formi léttari greiðslubyrði meðan það er að ráða fram úr sínum málum.
Við þurfum að leita eftir samstarfi við Íbúðalánasjóð og sveitarfélögin til að fjölga leiguíbúðum og gefa þeim sem horfa fram á að missa húsnæði sitt kost á að leigja húsnæðið með það fyrir augum að eignast það á ný þegar hagurinn vænkast.
Nauðsynlegt er að grípa til skjótra úrræða til að draga úr atvinnuleysi, skapa ný störf og bæta framtíðarmöguleika þeirra sem missa vinnuna, með úrræðum á sviði endurmenntunar og starfsþjálfunar.
Þar er mikilvægt að við leitum nýrra lausna og vil ég nefna í því sambandi hugmyndir sem nú er verið að útfæra í iðnaðarráðuneytinu.
Þar kemur til álita að Atvinnuleysistryggingasjóður taki upp samstarf við Samtök iðnaðarins og Samtök sprotafyrirtækja um að skapa hundrað ný störf í sprotafyrirtækjum fyrir fólk sem misst hefur vinnuna. (Sömuleiðis hefur komið fram hugmynd um sérstakt frumkvöðlasetur fyrir fyrrum starfsmenn í fjármálafyrirtækjum, í samvinnu Nýsköpunarmiðstöðvar og Landsbankans.)
Við þurfum að bjóða þeim sem missa vinnuna endurmenntun við hæfi .
Ingibjörg Sólrún nefndi fleiri leiðir sem væru í athugun.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.