Norðmenn lána okkur 80 milljarða

Norðmenn munu lána Íslendingum 4,2 milljarða norskra króna, jafnvirði um 80 milljarða íslenskra króna, vegna efnahagskreppunnar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu norska fjármálaráðuneytisins en vitnað er til hennar á vef Aftenposten.

Þar er jafnframt sagt að norsk stjórnvöld hafi ákveðið að framlengja gjaldeyrisskiptasamninga, sem gerðir voru á milli landanna í sumar, út næsta ár. Þeir áttu að renna út í lok þessa árs og höfðu Íslendingar þegar dregið á hluta þeirra.

Í yfirlýsingu frá fjármálaráðuneytinu segir að Seðlabanki Noregs veiti þeim íslenska lánið en norska ríkisstjórnin muni eins fljótt og auðið er leggja fram tillögu fyrir Stórþingið um að ríkisábyrgð fyrir slíku láni. Lánið verður til 4-5 ára eftir því sem segir í yfirlýsingunni.

Þar er einnig haft er eftir Kristinu Halvorsen, fjármálaráðherra Noregs, að bankastjórn Seðlabanka Noregs hafi í síðustu viku samþykkt að framlengja gjaldeyrisskiptasamninginn við Seðlabanka Íslands að ósk hins síðarnefnda. Enn fremur hafi Seðlabanki Noregs fallist á langtímalán í evrum, andvirði 500 milljóna evra, eða 4,2 milljarða norskra króna.

Geir H. Haarde forsætisráðherra og Jonas Gahr Störe funduðu hér á landi í dag en þar kom fram að engar tölur hefðu verið nefndar um lán en að það yrði gert á næstu dögum.

Þetta lán bætist við 250 milljarða króna lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem þegar hefur verið sótt um.(visir.is)

Norðmenn hafa hér reynst vinir í raun. Þeir koma í kjölfar Færeyinga en þessar þjóðir eru fyrstar Norðurlandaþjóða  að veita okkur lán til viðbótar láni IMF.

Björgvin Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband