Mánudagur, 3. nóvember 2008
Afskrifuðu stjórnendur gamla Kaupþings skuldir starfsmanna?
Stjórn Kaupþings lét afskrifa skuldir fjölda starfsmanna bankans áður en hann var þjóðnýttur. Fjármálaeftirlitið segist ekki hafa samþykkt niðurfellingu krafna eða trygginga vegna lánveitinga til starfsmanna bankans.
Kaupþing afskrifaði skuldir fjölda starfsmanna bankans í lok september, örfáum vikum áður en bankinn var þjóðnýttur. Heimildarmaður fréttastofu, sem ekki vill láta nafns síns getið, segir að stjórn bankans hafi tekið þessa ákvörðun. Fjárhæðirnar munu vera háar og skuldir fjölda starfsmanna munu hafa verið afskrifaðar.
Samkvæmt heimildum fréttastofu voru skuldir margra stjórnenda Nýja Kaupþings afskrifaðar. Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings vildi ekki svara spurningum fréttamanns þegar náðist í hann í dag. Ekki náðist í Hreiðar Má Sigurðsson, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, né Finn Sveinbjörnsson, forstjóra Nýja Kaupþings.
Starfsmaður skilanefndar Kaupþings sem fréttastofa náði tali af vildi heldur ekki tjá sig um málið. Gunnar Páll Pálsson, sem sat í stjórn gamla Kaupþings segist ekki vita til þess að skuldir starfsmanna bankans hafi verið afskrifaðar.
Í svari Fjármálaeftirlitsins við fyrirspurn fréttastofu vegna málsins kemur fram að í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda nýju bankanna segi að skuldbindingar starfsmanna lúti sömu lögmálum og önnur lán sem fluttust yfir til nýju bankanna. Fjármálaeftirlitið hafi ekki samþykkt sérstaklega niðurfellingu krafna eða trygginga vegna lánveitinga til starfsmanna bankanna.
Landsbankinn sendi frá sér tilkynningu vegna þessa og vill af því tilefni taka fram að Landsbanki Íslands hf. veitti starfsmönnum ekki lán fyrir hlutabréfakaupum í bankanum sem hluta af starfskjörum. Því hefur ekki verið um neinar slíkar niðurfellingar skulda starfsmanna eða félaga þeirra að ræða hjá bankanum.(ruv.is)
Hér er hreyft stóralvarlegu máli.Væntanlega verður það rannsakað ítarlega hvort umræddar afskriftir á skuldum starfsmanna gamla Kaupþings hafi átt sér stað.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:51 | Facebook
Athugasemdir
Hvad fær tig til ad halda ad málid verdi rannsakad ??
Tetta komst upp vegna tess ad starfsmadur kjaftadi frá í tölvupósti til fjölda bladamanna.
Skilanefndir bankanna hafa haft tessar upplýsingar á sínu bordi í mánud án tess ad gera neitt í málinu. Tad átti ad sópa tessu undir teppid. Núna verdur tad reyndar adeins erfidara.
Elfa (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 04:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.