Tryggvi Þór: Mistök að þjóðnýta Glitni

Tryggvi Þór Herbertsson fyrrverandi efnahagsráðgjafi Ríkisstjórnarinnar segir að þeir Geir H. Haarde hafi ekki verið sammála um hvaða leiðir ætti að fara. „Ég lagði til aðrar leiðir, stundum var hlustað og stundum ekki," sagði Tryggvi í Markaðnum hjá Birni Inga á Stöð 2 fyrir stundu. Hann segir neyðarlögin hafa verið skrifuð nóttina áður en þau voru sett og   hann myndi ekki snerta á pólitík með tveggja metra löngu priki.

Tryggvi hætti óvænt sem efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar og hefur lítið gefið upp um ástæður þeirrar ákvörðunnar til þessa. Hann segir að eftir 15.september þegar Lehman borthers fóru á hausinn og lánalínur hafi byrjað að þorna, ekki síst á jaðarsvæðum eins og Íslandi hafi hann séð að það stefndi í óefni.

„En að þetta skyldi fara nákvæmlega svona sá maður ekki fyrir. En ég sá það mjög fljótlega að með því að fara svokallaða Glitnisleið myndi það valda dómínóáhrifum inn í hagkerfið," segir Tryggvi.

Tryggvi viðurkenndi að honum hefði fundist sín rödd ekki ná nægjanlega í gegn. Aðspurður um stirð samskipti við Davíð Oddsson seðlabankastjóra sagði Tryggvi það einungis vera sögusagnir.

„Það er kjaftað um að það hafi verið núningur okkar á milli. En það voru ekki mikil samskipti og við töluðum ekki mikið saman um þessa hluti. En ég heyri úti í bæ að það sé ekki talað alltof vel um mann á þeim vígsstöðvum, það dæmir sig bara sjálft."

Tryggvi sagðist sjálfur hafa séð lögfræðingana sem skrifuðu neyðarlögin hafa verið við þá iðju nóttina áður en lögin voru sett. „Það að búið væri að skrifa þau, stenst því ekki."

Tryggvi var síðan spurður hvort að þessi stuttu og snörpu kynni hans af stjórnmálum hefðu kveikt áhuga hans á að hella sér út í pólitík. „Ég viðurkenni að fyrir nokkrum árum kitlaði það mig en það hefur dregið allverulega úr þeim áhuga eftir að ég varð vitni að þeim hlutum sem hafa verið í gangi. Í dag myndi ég ekki snerta á stjórnmálum með tveggja metra löngu priki, ekki frekar en þú," sagði Tryggvi við Björn Inga Hrafnsson og hló.

Tryggvi sagðist einnig hafa upplýsingar um það innan úr Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að það stæði ekki til að samskipti okkar við Bretland og Holland kæmu í veg fyrir lánið. „Það eru allavega algjörlega þau skilaboð sem ég hef fengið og það er ekki héðan frá Íslandi."

Tryggvi ráðleggur fólki líka að frysta húsnæðislánin sín fyrst sá möguleiki er fyrir hendi. „Ég ætla ekki að borga af íbúðalánunum mínum á meðan þessi möguleiki er fyrir hendi, ég ætla að bíða þar til gengið jafnar sig."

Tryggvi sagði einnig að brýnasta verkefnið væri að koma gjaldeyrismarkaðnum í gang og við það að krónan færi á flot myndi gengið falla mjög mikið. Hann telur hinsvegar að við eigum að taka þann skell því gengið muni jafna sig fljótt aftur, á nokkrum vikum. Hann sagði að við ættum allra síst að fara í skömmtun á gjaldeyri.( visiri.s)

Tryggvi Þór bætist í hóp margra sérfræðinga,sem telja,að það hafi verið óráð að þjóðnýta Glitni.Fróðlegt væri að vita hvaða sérfræðinga ríkisstjórnin hafði sér við hlið þegqr hún ákvað að þjóðnýta Glitni. Aðalhagfræðingur Seðlabankans var ekki með í ráðum. Ef Glitnir hefði ekki verið ríkisvæddur hefðu hlutirnir farið öðru vísi.

 

Björgvin Guðmundsson

 



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Það er líka gott að sjá að hann er nú kominn til betri vegar og viðurkenndi þarna í viðtalinu að hann hefur skipt um skoðun hvað varðar krónuna og telur hann nú að Ísland eigi að ganga í ESB og taka upp evru.

Jón Gunnar Bjarkan, 8.11.2008 kl. 14:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband