Mánudagur, 10. nóvember 2008
Geir: Engin áform um að flýta kosningum
Geir H. Haarde forsætisráðherra segir engin áform um að flýta kosningum að svo stöddu. Þetta kom fram í svari hans við fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstri - grænna.
Steingrímur spurði ráðherra út það hvernig til stæði að standa að upplýsingagjöf til almennings og sagði reiðina mikla í samfélaginu og með réttu. Þá sagði hann að almenningur yrði að geta treyst því að mál yrðu rannsökuð og spurði hvort ekki væri hægt að gefa til kynna að um leið og aðstæður leyfðu yrði boðað til kosninga. Enn fremur spurði hann hvernig ríkisstjórnin ætlaði að verja heimilin og atvinnulífið næstu daga og næstu vikur. Þessi mál þoldu enga bið og hver einasti dagur væri ákaflega dýrkeyptur.
Geir H. Haarde svaraði því til að engin áform væru um að flýta kosningum að svo stöddu. Þá vísaði hann til þess varðandi spurningu um rannsókn á bankahruninu að formenn flokkanna ynnu að því máli. Fundað yrði síðar í dag og þar leitað leiða til að flytja sameiginlegt þingmál um rannsókn. Þá sagði hann að honum þætti miður ef mönnum þætti sem upplýsingagjöf væri ekki með eðlilegum hætti en benti á að opnað hefði verið sérstakt símaver og ráðuneyti myndu einnig veita upplýsingar og liðsinni. Þá ynnu ýmsar stofnanir eins og Íbúðalánasjóður og Vinnumálastofnun hörðum höndum að því að leysa vanda einstaklinga.
Steingrímur sagði þá að það óskynsamlegt hjá forsætisráðherra að tala svona um kosningar. Það væri veruleikafirring og hlutirnir muni aldrei ganga án kosninga innan skamms. Varðandi rannsókn sagði hann tímann nauman og vildi hann að í þessari viku liti frumvarp þar um dagsins ljós. (visir.is)
Mér kemur svar Geirs ekki á óvart. En mér kæmi ekki á óvart þó afstaðan mundi breytast eftir áramót og ákveðið yrði að kjósa næsta vor
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.