Sjálfstæðisflokkurinn ræðir ESB

Búast má við tíðindum af vettvangi Sjálfstæðisflokksins um Evrópumálin í dag. Boðað hefur verið til reglulegs fundar þingflokks og miðstjórnar í dag þar sem Evrópusambandsmálið verður tekið til umræðu, skv. traustum heimildum. Innan flokksins er þó sagt að ekki sé von á að þar verði ákveðinn viðsnúningur á stefnu Sjálfstæðisflokksins gagnvart aðild að ESB. Þau mál verði hins vegar tekin til umræðu vegna gjörbreyttra aðstæðna í samfélaginu eftir að fjármálakreppan skall á og endurmetin og þeim fundinn „einhver farvegur,“ eins og það er orðað.

Mikill þrýstingur er af hálfu Samfylkingarinnar innan ríkisstjórnarinnar á að stefnan verði sett á aðildarumsókn að ESB í tengslum við aðgerðaráætlun vegna kreppunnar. Heimildarmenn innan Samfylkingar segja jafnframt að þeir setji samstarfsflokknum enga afarkosti í þessum málum. Sjálfstæðismenn sem rætt var við taka fram að Samfylkingunni hafi ekki verið gefin nein fyrirheit um að stefnubreyting sé í vændum gagnvart ESB-aðild, þó opnað sé á umræðuna um nýtt hagsmunamat gagnvart ESB með þessum hætti á vettvangi miðstjórnar.(mbl.is)

Það verður fróðkegt að sjá hvað kemur út úr fundi Sjálfstæðisflokksins um ESB.Ólíklegt er að flokkurinn taki upp nýja stefnu í málinu nú er það mun verða eftir því tekið hvað framámenn flokksins leggja til  í málinu.

Björgvin Guðmundsson

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er þá helzt, að við ættum að fara að ganga í þetta bandalag, sem hefur beitt okkur lymskulegu baktjaldamakki og bolabrögðum síðustu vikuna eða lengur! – með því að mynda samstöðu gegn lánsumsókn okkar hjá IMF og jafnvel þvinga norræn 'vinaríki' til að hafna allri lánveitingu til okkar á meðan.

Bretar og Hollendingar hafa knúið það fram, að flokkssystir þín Ingibjörg Sólrún vill láta leggja á okkur stærri skuldakröfu en lögð var á Þjóðverja í Versalasamningunum. Þetta vill hún – að kyssa á vöndinn og Össur með henni – og síðan að sækja auðmjúklega um 'innngöngu' í þetta tröllabandalag!

Það er til einskis að tala um, eins og hún þó gerir, að þetta borgist að verulegu leyti (240 eða 340 til 540 milljörðum, gizkar hún á!) með eignum Landsbankans í Bretlandi.* Ef hún vill láta þær eignir ganga upp í þetta, er hún að afsala þeim í hendur Breta og Hollendinga í stað þess að láta þær ganga inn í Nýja Landsbankann eða koma íslenzkum hluthöfum gamla Landsbankans til góða. Tapið er óneitanlega þjóðarinna, ALLT tapið: 640 milljarðar!

Hér er Samfylkingin sannarlega ekki að standa á réttinum, vill ekki dómsúrskurð um málið (eins og lagaprófessorinn Stefán Már Stefánsson og Lárus Blöndal hrl. hvöttu til og hafa fulla trú á; sjá nánar þetta viðtal í Speglinum í Rúv. í gærkvöldi: Stefán Már Stefánsson sérfræðingur í Evrópurétti). En Ingibjörg stendur ekki á landsréttindum, heldur beygir sig fyrir því Brusselvaldi, sem hún vill ólm og uppvæg að hennar eigin þjóð gerist undirgefin!

Niður með Evrópubandalagið! 

______ 

* Hún taldi í sjónvarpi í gærkvöldi, að við gætum þurft að borga 100 til þrjú eða fjögur hundruð milljarða í erlendum gjaldeyri til Icesave-reikningshafanna. Dragið það frá þeim 640 milljörðum, sem þar er um að ræða í heild, "skuldinni" sem hún segir okkur þurfa að viðurkenna! Til að fría vini sína handan hafsins við óþægindum sleppir hún því líka algerlega að tala um að setja nokkra fyrirvara við þessum 'samningi' – sem verður í reynd ekkert annað en nauðasamningur að engu hafandi. Og nú geta þeir glaðzt í Brussel að hafa tekizt að beita fjárkúgun við þessa þjóð, sem hótað var því að verða kyrkt fjárhagslega vegna þessarar rómuðu evrópsku samstöðu!

Jón Valur Jensson, 14.11.2008 kl. 13:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband