Mánudagur, 24. nóvember 2008
Hverjir bera mestu ábyrgðina af bankahruninu?
Mikið er nú rætt um bankahrunið og fjármálakreppuna á Íslandi.Menn ræða hver beri ábyrgð á hruninu.Það er ekki nóg með að bankarnir hafi allir komist í þrot heldur er þjóðfélagið allt á hliðinni og ríkið verður að taka stór lán til þess að koma gjaldeyrisviðskiptum í eðlilegt horf og til þess að greiða skuldir vegna Icesave reikninga erlendis að svo miklu leyti sem eignir bankanna duga ekki fyrir þessum skuldum.
Að sjálfsögðu bera stjórnendur bankanna,bankastjórar og bankaráðsmenn mestu ábyrgðina. Þeir stýrðu bönkunum í þrot.Þeir skuldsettu þá svo mikið að þeir gátu ekki greitt af þessum skuldum þegar alþjóðlega bankakreppan skall á.Það verður sjálfsagt rannsakað hvað fór úrskeiðis hjá stjórnendum bankanna.
En eftirlitsstofnanir brugðust einnig.Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn brugðust. Þessir aðilar sváfu á verðinum og gerðu ekkert þegar bankarnir þöndust út og tóku meiri og meiri erlend lán,sem engin leið var að greiða til baka.Umsvif bankakerfisins voru orðin 12-föld þjóðarframleiðslan eða meiri en nokkurs staðar annars staðar.Báðar eftirlitsstofnanirnar höfðu viðtækar heimildir til þess að grípa í taumana en þær gerðu ekkert. Þvert
á móti lýstu forstjóri Fjármáaeftirlitsins og formaður bankastjórnar Seðlabankans því yfir á þessu ári,að allt væri í lagi með bankana og þeir hefðu alla burði til þess að standast alþjóðlegar sviptingar í fjármálum!
Það hefði ekki aðeins átt að taka í taumana á þessu ári heldur mikið fyrr, fyrir einhverjum árum áður en bankarnir þöndust of mikið út og skuldsettu sig langt umfram það sem eðlilegt gat talist.Það þýðir ekkert fyrir forráðamenn þessara eftirlitsstofnana að koma fram og segja að þeir beri enga ábyrgð. Þeir bera ábyrgð eins og stjórnendur bankanna. Ríkisstjórnin ber einnig ábyrgð. Eftirlitsstofnanir heyra undir hana og vissulega á ríkisstjórn að fylgjast með því á hverjum tíma að þjóðarbúinu sé ekki stefnt í hættu með glæfralegum ráðstöfunum.Það hefur einkennt umræðuna,að enginn þykirst bera ábyrgð en sannleikurinn sá,að þessir aðilar bera allir ábyrgð og þeir verða að axla ábyrgð.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Björgvin, það er gaman en jafnframt fræðandi að lesa bloggin þin.
Ég hef í nokkur ár talið verðbólguna okkar helsta óvin. Þar hefur ríkið með litlu aðhaldi og ótímabærum fjárfestingum átt stóran þátt í að veikja undirstöður efnahagsins. Með því að hækka lánahlutfall af íbúðalánum þá jókst hagnaður verktaka að byggja ný hús og nú er staðan sú að út um alla borg eru tómar íbúðir. Íbúðir sem búið er að setja í óhemju fjármagn og vinnu sem nú er ekki hægt að nota til að reisa efnahaglífið við.
kveðjur,
Lúðvík
Lúðvík Júlíusson, 24.11.2008 kl. 10:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.