Laugardagur, 6. desember 2008
Stórhætta: Erlendum aðilum afhentar aflaheimildir okkar með aðild að bönkunum
Geir Haarde og Þorgerður Katrín voru í þættinum Í vikulokin í morgun og svöruðu spurningum hlustenda.Einn hlustandi spurði Geir hvort ekki væri hætta á því að erlendir kröfuhafar gætu eignast aflaheimildir á Íslandsmiðum,ef þeir eignuðust stóra hluti í íslensku bönkunum. Geir taldi ekki mikla hættu á því. Þó talaði hann um,að rætt væri um að erlendir kröfuhafar eignuðust hluta í bönkunum og jafnvel þá að öllu leyti.Það liggur í augum uppi,að ef erlendir aðilar eignast ráðandi hlut í íslenskum bönkum geta þeir eignast allar aflaheimildirnar. Hér er stórhætta á ferðum.Útgerðarmenn á Íslandi skulda 600-800 milljarða í bönkunum. Útgerðin stendur fremur illa um þessar mundir.Hún getur sjálfsagt samið við íslenska ríkið,eiganda bankanna, um þessar skuldir. En ef útgerðin á Íslandi á að semja við erlenda aðila um kvótana líst mér ekki á það. Íslendingar ættu þá allt undir erlendum aðilum í þessu efni. Þeir gætu gjaldfellt lánin hvenær sem er og ef til vill er eitthvað af skuldum útgerðarinnar í vanskilum.Útlendingar hafa áhuga á aflaheimildum okkar. Hér er því stórhætta á ferðum. Við skulum ekki gera sömu mistökin aftur.Það voru gerð stórfelld mistök sem leiddu til falls bankanna. Ef við afhendum erlendum kröfuhöfum bankanna erum við að afhenda útlendingum aflaheimildirnar eins og þær leggja sig.Höldum við stefnuna,sem mörkuð var í upphafi: Erlendir kröfuhafar fá það sem fæst fyrir eignir gömlu bankanna en hleypum þeim ekki inn í nýju bankana nema þá að mjög litlu leyti,þannig að Íslendingar geti haft full yfirráð yfir aflaheimildunum.Við töldum,að allt væri í lagi með bankana þegar þeir voru að hrynja. Við skulum ekki segja að allt verði í lagi með aflaheimildirnar þó erlendir aðilar eignist bankana. Það er sjálfsblekking.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er annað sem ég tel vera umhugsunarefni og það er að þegar við verðum komin inn í ESB (ég er samfærð um inngöngu) Ef kvótinn verður þá enn í höndum einstaklinga og fyrirtækja þá tel ég mikla möguleika á sölu veiðiheimilda úr landi. Meðan við erum enn fyrir utan ESB þá er nauðsynlegt að eignarhaldi á kvótanum verði komið í eigu ríkisins. Er ekki lag núna meðan ríkið á bankana og kvótaskuldirnar eru þar inni.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 6.12.2008 kl. 12:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.