Vilhjálmur Þ.Vilhjálmsson á móti útsvarshækkun

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, forseti borgarstjórnar, leggst gegn því að borgarstjórn hækki útsvar þrátt fyrir að stjórnvöld heimili sveitarfélögum slíkar hækkanir. Fram kom í fréttum í dag að sveitarfélög fá heimild til að hækka útsvar um 0,5% til að mæta aðsteðjandi vanda í efnahagslífinu.

„Ég er ekki hlynntur því og tel að það sé nóg búið að leggja á heimilin í landinu að við förum ekki að hækka okkar skatta," segir Vilhjálmur. Hann segir nauðsynlegt að finna aðrar leiðir til að komast út úr þeim vanda sem steðjar að.

„Vandi heimilanna er mikill og það er varla á bætandi. Það er verið að hækka tekjuskattinn sem er hluti af staðgreiðslunni. Það mun hafa áhrif og við verðum að finna aðrar leiðir til að leysa okkar mál," segir Vilhjálmur. Hann segir jafnframt að borgin geti ekki hækkað gjöld vegna ýmissar þjónustu.

Vilhjálmur segir að unnið sé að því nánast dag og nótt að finna leiðir til þess leysa þann vanda sem borgin á við að etja vegna stöðunnar í efnahagsmálum. „Og við kannski búum betur en mörg önnur sveitarfélög og ekki síst vegna þess að við höfum verið að stýra okkar fjármálum vel og við búum að því núna," segir Vilhjálmur. Hann segir að borgin hafi ef til vill meira svigrúm en önnur sveitarfélög til að mæta þessum áföllum. (visir.is)

Ég skil vel afstöðu Vilhjálms. Það er erfitt hjá heimilunum í borginni og í landinu öllu. Skattahækkanir eru ekki það sem borgarbúar þurfa núna.

 

Björgvin Guðmundsson

 



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband