Mánudagur, 15. desember 2008
Alþingi orðin afgreiðslustofnun
Undanfarið hefur gagnrýni á störf og þróun alþingis aukist.Alþingi hefur oft verið eins og afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórn hverju sinn. Og þetta hefur aukist í tíð núverandi stjórnar vegna mikils þingmeirihluta hennar.Eftir hrun bankanna og setningu neyðarlaganna hefur verið mikill hraði á afgreiðslu laga á alþingi. Það hefur verið réttlætt með því,að nokkurs konar neyðarástandi ríkti í landinu og hafa yrði hraðar hendur við afgreiðslu nýrra laga til þess að bjarga því sem bjargað yrði.
Það sem einkennir störf alþingis í dag og undanfarin misseri er þetta: Framkvæmdavaldið vinnur öll frumvörp,sem samþykkja á og leggur málin fullsköpuð fyrir alþingi.Stundum er tíminn svo knappur að ný frumvörp renna á færibandi gegnum þingið og ekki er einu sinni unnt að vanda vinnubrögð við afgreiðslu þeirra. Þingið bíður oft aðgerðarlaust dögum saman eftir að ráðuneytin ljúki vinnu við frumvörp og síðan eru málin afgreidd á handahlaupum. Þetta vinnulag gengur ekki. Og það gengur ekki að alþingi sé aðeins afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavaldið. Hér verður að gera róttækar breytingar á. Páll Magnússon,Framsókn,kom með þá athyglisverðu tillögu í útvarpsþætti um helgina,að fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytis væri flutt niður í þing.Kvað hann slíka breytingu mundu gerbreyta málum og bæta stöðu þingsins. Þetta er góð tillaga.Það verður að gera þingið virkara í allri frumvarpagerð og fjárlagafrumvarpið er ef til vill mikilvægasta frumvarp þingsins. Ef unnið yrði að gerð þess og undirbúningi í þinghúsinu mundi að skapa mikla breytingu.
Í umræðunni um hlut alþingis hefur einnig verið rætt um ýmsar róttækari tillögur um breytingar á framkvæmdavaldi og löggjafarvaldi. Rætt hefur verið um að kjósa forsætisráðherra beinni kosningu og að láta ráðherra víkja af alþingi við skipan í ríkisstjórn. Ekki er ég hrifinn af hugmynd um beina kosningu forsætisráðherra. En hins vegar mætti gjarnan taka það upp að ráðherrar létu af þingmennsku við skipan í stjórn.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.