Laugardagur, 27. desember 2008
Ríkislögreglustjóri skoðar grunsamlegar millifærslur gamla Kaupþings til útlanda
Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra skoðar nú millifærslur upp á samtals hundrað milljarða króna frá Kaupþingi á Íslandi inn á erlenda bankareikninga. Grunur leikur á að stjórnendur bankans hafi fært vildarviðskiptavinum stórar fjárhæðir á silfurfati.
Samkvæmt heimildum fréttastofu barst Efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra ábending þess efnis fyrir um hálfum mánuði. Ábendingin var það vel ígrunduð að ástæða þótti til að skoða málið nánar. Um er að ræða margar millifærslur upp á samtal hundrað milljarða frá Kaupþingi hér á landi til annnarra landa, aðallega Lúxemborgar.
Í ábendingunni kemur fram að tildrög þessara millifærslna séu samningar sem gerðir voru við stærstu viðskiptavini bankans. Í samningunum, sem voru að mestu gjaldeyrisskiptasamningar, hafi falist ákvæði sem voru til þess fallin að skila viðskiptavinunum töluverðum ávinningi.
Viðskiptavinirnir hafi því ekki getað annað en hagnast á samningunum. Efnahagsbrotadeild hefur beðið Fjármálaeftirlitið um nánari upplýsingar varðandi þessa samninga.
Þá hefur fréttastofa einnig heimildir fyrir því að þetta sé meðal annars ástæða þess að Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, hafi lagt ríka áherslu á að stjórnvöld í Lúxemborg veiti þeim sem hafa með rannsókn á falli íslensku bankanna að gera nauðsynlegan aðgang að gögnum í dótturfélögum íslensku bankanna. Björgvin sagði í fréttum okkar í síðustu viku að verði Kaupþing í Lúxemborg seldur muni verða sérstakt ákvæði í samningnum um að aðgengi íslenskra stjórnvalda að upplýsingum í bankanum verði óskert frá því sem nú er.
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, sagðist í samtali við fréttastofu ekki vilja tjá sig um einstök mál sem eru til skoðunar. Ekki náðist í Sigurð Einarsson, fyrrverandi stjórnarformann bankans. (visir.is)
Nauðsynlegt er að rannsaka þetta mál alveg ofan í kjölinn. Spurning er hvort gamla Kaupþing hefur skotið 100 milljorðum króna undan.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.