Stjórnvöld áttu að stöðva útþenslu bankanna

Sá dagur líður ei hjá að ég spyrji mig ekki hvort stjórnvöld hefðu getað komið í veg fyrir þá atburði sem urðu hér á landi í haust," sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra í áramótaávarpi sínu sem sýnt var í gærkvöld. Geir sagði að hann sem forsætisráðherra bæri ábyrgð á stjórn landsins og þá ábyrgð myndi hann axla, hvort sem siglt væri um lygnan sjó eða þungan.

„Okkur hafa vissulega orðið á mistök í þeim hamförum sem riðið hafa yfir en það er engu að síður ljóst í mínum huga, að það var ekki á færi íslenskra stjórnvalda að afstýra hruni íslensku bankanna eftir að heimskreppan skall á af fullum þunga. Allar aðgerðir stjórnvalda að undanförnu hafa miðað að því að takmarka það tjón sem íslenska þjóðin mun óhjákvæmilega verða fyrir vegna bankahrunsins. Sú barátta hefur staðið dag og nótt og henni er hvergi nærri lokið," sagði Geir.

Geir sagði að Íslendingar yrðu að draga réttan lærdóm af því sem gerst hefði, varðveita það sem hafi gefist vel og breyta því sem miður hafi farið. „Mér er þrennt efst í huga: Í fyrsta lagi verðum við að sníða okkur stakk eftir vexti. Við verðum að sjá til þess að í engan þátt efnahagslífsins hlaupi ójafnvægi eða óviðráðanlegur ofvöxtur eins og gerðist í bankakerfinu. Í öðru lagi verður efnahagur okkar að byggjast á raunverulegri verðmætasköpun. Ég á þar ekki aðeins við fiskveiðar, álframleiðslu og hefðbundinn landbúnað heldur líka margs konar aðra framleiðslu og þjónustu sem við stundum og getum stundað, eins og ferðamennsku, og þekkingariðnað af margvíslegu tagi sem byggist á skynsamlegri nýtingu auðlinda þjóðarinnar, menntun og mannauði. Í þriðja lagi þurfum við að temja okkur nýtt hugarfar í atvinnulífinu. Ævintýramennska og óhóf eiga að heyra sögunni til," sagði Geir.

Hann bætti við að forystumenn í atvinnulífi yrðu að finna meira til ábyrgðar sinnar í samfélaginu. Frelsi fylgdi ábyrgð. Margar aðgerðir bankanna og forystumanna þeirra hafi ekki borið vitni þeirrar ábyrgðar sem með réttu hefði mátt krefjast af þeim. Hægt er að horfa á ávarpið með því að smella á horfa á myndskeið hnappinn hér fyrir ofan.(visir,is)

Það kann að vera rétt hjá Geir,að eftir að bankarnir höfðu þanist út, og alþjóðleg bankakreppa var skollin á var lítið,sem ekkert unnt að gera.En það er sök eftirlitsstofnana og stjórnvalda,að bönkunum skyldi leyft að þenjast svo mjög út sem raun bar vitni. Þeir voru alltof stórir fyrir okkar hagkerfi og á því bera stjórbvöld ábyrgð.

 

Björgvin Guðmundsson

 



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband