Föstudagur, 2. janúar 2009
VG stærst,Samfylking næststærst
Stuðningur við ríkisstjórnina hefur aukist frá fyrra mánuði samkvæmt þjóðarpúlsi Gallups og fleiri segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokk nú en fyrir mánuði. Vinstri grænir eru engu að síður áfram með mest fylgi stjórnmálaflokka landsins.
Þjóðarpúls Gallup mælir mánaðarlega fylgi stjórnmálaflokka á Alþingi og einnig stuðning við ríkisstjórn landsins. Frjálslyndi flokkurinn hefur minnst fylgi. Hann fengi tæp 4% atkvæða ef kosið yrði nú. Fylgi flokksins hefur aukist um tæpt prósentustig milli mánaða. Flokkurinn nýtur hins vegar mun minna fylgis nú en í kosningunum í maí 2007 þegar hann fékk um 7% greiddra atkvæða.
Rúmlega 7,5% kjósenda myndi greiða Framsóknarflokknum atkvæði sitt ef gengið yrði til kosninga nú. Stuðningur við flokkinn er nánast sá sami og fyrir mánuði en mun minni en þegar síðast var kosið; þá hlaut Framsókn um 12% atkvæða.
Sjálfstæðisflokkurinn er áfram 3. Stærsti flokkurinn. Eftir að hafa fengið um 37% greiddra atkvæða í síðustu alþingiskosningum mælist flokkurinn nú með um 25% fylgi. Forysta flokksins má kannski vel við una því fylgið mælist um 4 prósentustigum meira nú en þegar þjóðarpúls var mældur fyrir um mánuði. Samfylkingin er næststærsti flokkurinn; mælist nú með um 28% fylgi.
Öfugt við samstarfslokkinn í ríkisstjórn hefur fylgi Samfylkingar minnkað frá síðasta þjóðarpúlsi; um heil 3 prósentustig.
Flestir kjósendur, eða um 29%, myndu hins vegar greiða frambjóðendum vinstri grænna atkvæði sitt ef kosið yrði til Alþingis nú. Þrátt fyrir að vera stærsta stjórnmálaafl þjóðarinnar annan mánuðinn í röð hefur lítillega dregið úr vinsældum VG milli kannana. Fyrir mánuði mældist flokkurinn með 32% fylgi sem er um 3 prósentustigum meira en nú. Flokkurinn má samt vel við una í ljósi þess að hann fékk um 14% greiddra atkvæða í síðustu alþingiskosningum.
Ríkisstjórnina styðja nú um 36% kjósenda, sem er aukning um 4 prósentustig milli mánaða. Niðurstaðan hlýtur engu að síður að valda forystumönnum Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks áhyggjum því fylgi við ríkisstjórnina hefur hrapað skarpt síðustu mánuði. Um 67% kjósenda studdi til að mynda ríkisstjórn flokkanna tveggja í mars á síðasta ári.(ruv,is)
Athyglisvert er,að fylgi við ríkisstjórn hefur aukist frá síðustu könnun.En hvað um það.Ríkisstjórnin er kolfallin samkvæmt þessari könnun.Hér veldur bankahrunið sjálfsagt mestu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.