Hægri sjónarmið í heilbrigðiskerfinu

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, hefur í hyggju að gera umtalsverðar breytingar á skipulagi heilbrigðisþjónustunnar á næstunni og voru þær breytingar kynntar á fundi nú klukkan tvö.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að skipulagsbreytingarnar byggist á vinnu sem farið hefur fram á vegum heilbrigðisráðuneytisins undanfarna mánuði, eða frá því ný lög um heilbrigðisþjónustu tóku gildi haustið 2007.

„Með skipulagsbreytingunum hyggst ráðherra ná fram hagræðingu í rekstri heilbrigðisstofnana víðs vegar um landið og treysta um leið undirstöður grundvallarstarfsemi heilbrigðisþjónustunnar," segir í tilkynningunni.

„Breytingarnar hafa verið unnar í samráði við stjórnendur stofnananna sem þær taka til og meginmarkmið þeirra hafa verið kynnt starfsmönnum viðkomandi stofnana. Á næstu dögum verður unnið með stjórnendum stofnana að útfærslu breytinganna hvað varðar tilfærslur verkefna og starfsfólks. Þetta verður gert í vinnuhópum sem skipaðir verða úr hópi stjórnenda stofnananna og skila þeir útfærslu sinni til ráðherra fyrir 19. janúar 2009," segir einnig.

Megin breytingarnar verða þessar að því er varðar spítalarekstur á Höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess:

  • St. Jósefsspítala-Sólvangi verður alfarið falið hlutverk á sviði öldrunarlækninga og hvíldarinnlagna
  • Sérfræðingum og fagfólki, sem þar hafa gert skurðaðgerðir, verður boðin aðild að því að byggja upp skurðstofurekstur í nýrri aðstöðu á Suðurnesjum
  • Meltingasjúkdóma - og lyflækningadeild verður tengd starfsemi á Landspítalans og hin góða reynsla af göngudeildarstarfsemi á St. Jósefsspítala þróuð með sérfræðingum þaðan
  • Landspítalinn mun yfirtaka skurðstofurekstur á Selfossi
  • Vaktir á skurðstofum á Selfossi og í Keflavík verða lagðar af


Þá segir að breytingarnar á landsbyggðinni feli í sér verulega einföldun stjórnsýslu stofnana með sameiningu þeirra og ákvörðun um stóraukna samvinnu þeirra. Er þetta meðal annars gert í framhaldi af setningu nýrra laga um heilbrigðisþjónustu sem tóku gildi fyrir rúmu ári.

Þetta eru helstu breytingarnar á landsbyggðinni:

  • Allar heilbrigðisstofnanir og heilsugæslustöðvar á Norðurlandi verða sameinaðar í eina undir forystu Sjúkrahússins á Akureyri, sem verður Heilbrigðisstofnun Norðurlands og mun m.a. taka við hlutverki ráðuneytisins varðandi samning um heilsugæsluna á Akureyri
  • Allar heilbrigðisstofnanir og heilsugæslustöðvar á Vesturlandi verða sameinaðar í eina með höfuðstöðvar á Akranesi
  • Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja verður sameinuð Heilbrigðisstofnun Suðurlands sem jafnframt tekur við umsjón með samningi sem í gildi er milli Heilbrigðisstofnunarinnar á Höfn í Hornafirði og heilbrigðisráðuneytisins
  • Heilbrigðisstofnunin á Patreksfirði sameinast Heilbrigðisstofnun Vestfjarða sem hefur höfuðstöðvar á Ísafirði
  • Aukið verður enn frekar samstarf milli Heilbrigðisstofnunar Austurlands og sjúkrahússins á Akureyri

„Einfaldari stjórnsýsla, hagkvæmari rekstur og aukin samvinna stofnanna er talin geta dregið verulega úr útgjaldaaukningunni sem er staðreynd varðandi þær stofnanir sem hér eiga í hlut, en markmið breytinganna er að slá skjaldborg um og tryggja kjarnastarfsemi þessara mikilvægu stofnana á sviði heilbrigðismála á erfiðum tímum," segir að lokum í tilkynningunni frá ráðuneytinu.

(visir,is) Ekki líst mér alls kostar á væntanlegar breytingar í heilbrigðisþjónustunni. Mér sýnist,að halda eigi  áfram á þeirri braut,sem Guðlaugur Þór hefur markað að auka íhalds-hægri sjónarmið í heilbirgðisþjónustunni.Nýlega hefur hann tilkynnt,að tekin verði upp komugjöld þegar fólk leggst inn á spítala. Verða menn að greiða  6 þús. kr. þegar  þeir leggjast inn á spítalan en það hefur verið aðalsmerki sjúkrahúsa hér,að vistin væri ókeypis og Samfylkingin hafði lýst því yfir,að svo yrði áfram.Leggja á niður St.Jósefsspítala,sem hefðbundið sjúkrahús og breyta því í öldrunarheimili. St.Jósefsspítali hefur verið mjög góður spítali með færum skurðlæknum og meltingarsérfræðingum. Sú starfsemi verður nú lögð niður. Þegar sjúkrahúsin í Reykjavík voru sameinuð átti að spara og hagræða mikið. En ríkisendurskoðun komst að þeirria niðurstöðu að svo hefði ekki orðið en kostnaður af sameiningunni hefði orðið mikill.Ég er hræddur um,að eins geti farið nú. Það  er verið að gera miklar breytingar nú til þess að geta komið ákveðinni starfsemi í einkarekstur.Þetta slær mig illa.

 

Björgvin Guðmundsson




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband