Laugardagur, 10. janúar 2009
Hvað gerist á landsfundi Sjálfstæðisflokksins?
Nú styttist í landsfund Sjálfstæðisflokksins en talið er,að niðurstaða hans geti haft úrslitaáhrif á gang stjórnmála í landinu á þessu ári.Samfylkingin hefur gefið til kynna,að ef landsfundurinn samþykki ekki aðildarviðræður við ESB þá eigi stjórnarflokkarnir ekki lengur samleið í ríkisstjórn.Æskilegast er,að landsfundurinn taki skýra afstöðu í málinu,samþykki aðildarviðræður eða vísi þeim á bug. Ýmislegt bendir hins vegar til,að ekki verði tekin skýr afstaða heldur verði reynt að miðla málum á fundinum til þess að flokkurinn klofni ekki.Geir Haarde formaður hefur sagt,að hugsanlegt væri að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort fara ætti í aðildarviðræður við ESB. Slík tillaga gæti orðið málamiðlun fundarins. Bæði þeir sem eru fylgjandi aðild að ESB og andvígir henni ættu að geta samþykkt slíka tillögu.En mundi það duga Samfylkingunni? Samfylkingin yrði ekki ánægð. Hún vill fá skýra afstöðu en hún getur ekki verið á móti því að þjóðin sé spurð um það hvort hún vilji fara í aðildarviðræður við ESB. Ingibjörg Sólrún hefur hins vegar sagt,að ef draga eigi þjóðina að kjörborðinu á annað borð þá eigi að kjósa til þings um leið.En Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki þingkosningar.Sjálfstæðisflokkurinn stendur illa hjá þjóðinni og þingkosningar gætu þýtt endalok stjórnarsamstarfsins.Ekki verða þingkosningar nema stjórnarflokkarnir komi sér saman um þær. Úr þessu öllu fæst væntanlega skorið um næstu mánaðamót.
Björgvin Guðmundssoin
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.