Miðvikudagur, 14. janúar 2009
Olíuleit á Drekasvæðinu boðin út
Fýsilegt er að byggja upp þjónustu í Gunnólfsvík í Finnafirði á olíuleitarstiginu sem áætlað er að geti staðið í 8 til 10 ár. Í upphafi verði að mestu nýtt mannvirki sem til staðar eru í sveitarfélögunum Vopnafjarðarhrepp og Langanesbyggð. Jafnframt eru aðstæður í Gunnólfsvík til frekari uppbyggingar taldar mjög fýsilegar þegar og ef olía og gas finnst á svæðinu. Þetta er meðal helstu niðurstaðna staðarvalsskýrslu vegna þjónustumiðstöðvar fyrir olíuleit á Drekasvæðinu. Útboð vegna olíuleitarinnar verða auglýst á morgun. Úthluta á fimm leyfum síðari hluta ársins.
Á 135. löggjafarþingi Íslendinga 2007-2008 var lögð fram og samþykkt þingsályktunartillaga um að fela ríkisstjórninni að aðstoða sveitarfélögin Vopnafjarðarhrepp og Langanesbyggð við að undirbúa og kanna þörf á starfrækslu þjónustumiðstöðvar sem gæti annast alla helstu þjónustu hérlendis við skip sem leita olíu á Drekasvæðinu.
Í kjölfar þessarar samþykktar stofnuðu sveitarfélögin félagið, Drekasvæðið ehf., til þess að vinna að undirbúningi málsins. Í febrúar 2008 ákvað Iðnaðarráðherra að aðstoða sveitarfélögin með fjár- og vinnuframlagi til þess að standa straum að sérfræðiaðstoð við þarfagreiningu og staðarvalsathugunum fyrir þjónustumiðstöð á svæðinu. Verkefnið var boðið út í mars meðal nokkurra verkfræðistofa með reynslu í sambærilegum verkefnum og var samið við Línuhönnun og Almennu verkfræðistofuna í apríl 2008.
Markmið verkefnisins var að kanna möguleika og hagkvæmni þess að á svæði þessara sveitarfélaga verði reist þjónustumiðstöð fyrir olíuleit, tengdar rannsóknir og síðar mögulega olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Verkefnið fólst í þarfagreiningu fyrir starfsemi olíuleitarfyrirtækja á fyrstu tveimur stigum olíuleitar, þ.e.a.s. mælingum og tilraunaborunum og síðar borun dýpri borhola ef í ljós kemur að slíkt sé fýsilegt. Þessi fyrstu ferli geta tekið allt að 8-10 ár. Að þeim tíma liðnum gætu vinnsluboranir hafist.
Í skýrslunni skyldi og meta möguleika til uppbyggingar þjónustusvæðis á landi á vinnslustigi olíu og gass í Gunnólfsvík í Finnafirði. Í þessu sambandi átti að greina þá aðstöðu sem fyrir er á svæðinu og möguleikum á frekari uppbyggingu hennar þ.a. notkunar-, umhverfis- og öryggiskröfum sé framfylgt.
Staðarvalsskýrslan liggur nú fyrir og verður kynnt á íbúafundum í sveitarfélögunum Vopnafjarðarhreppi og Langanesbyggð í dag.(mbl.is)
Hér eru miklir atvinnumöguleikar.Rannsóknir og kannanir krefjast mikillar þjónustu og er talið,að Vopnafjörður sé vel fallinn til þess að vera þjónustumiðstöð á könnunar-og rannsóknarstigi en Finnafjörður þegar olíuleit hefst.Össur Skarphéðinsson,iðnaðarráðherra,hefur drifið undirbúning máls þessa áfram af miklum krafti.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:34 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.