Fimmtudagur, 15. janúar 2009
Á að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael?
Þúsundir flýðu heimili sín í Gaza-borg í morgun. Ísraelskar hersveitir hafa sótt langt inn í þéttbýl íbúðarhverfi. Harðar loftárásir hafa verið gerðar á miðborgina og Ísraelar vörpuðu m.a. 3 fosfórsprengjum á höfuðstöðvar Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna þar sem hundruð flóttamanna hafa leitað skjóls fyrir sprengjuárásunum.
Chris Gunness, talsmaður Flóttamannahjálparinnar, segir að byggingin sé alelda. Fosfór brennur við háan hita og kveikir elda sem erfitt er að slökkva. Um 80.000 íbúar eru nú á flótta á Gaza. Tala látinna hækkar; 1.055 Palestínumenn verið drepnir á árásunum, þar af eru 670 óbreyttir borgarar.
Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri SÞ, reynir að knýja Ísraela til að hætta árásum og sagði við ísraelska utanríkisráðherrann Livni í Jerúsalem í morgun að tala látinna sé orðin óbærileg. Níu mannréttindasamtök í Ísrael skora á Ísraelsstjórn að hætta að koma í veg fyrir að neyðarhjálp berist íbúunum og að rannsókn fari fram á stríðsglæpum Ísraelshers.
Miguel Moratinos, utanríkisráðherra Spánar, átti viðræður við Olmert, forsætisráðherra Ísraels, í gærkvöld og forystumenn Palestínumanna í Ramallah og segist vongóður um vopnahlé. Abbas, forseti Palestínumanna, segir mikilvægt að lina þjáningar íbúanna á Gaza. Hamasamtök eru talin hlynnt tillögum Egypta sem kveður á um tafarlaut vopnahlé í tíu daga síðar verði samið um að umsátri Ísraela verði létt og gæslu landamæra.
Ísraelska dagblaðið Haarets segir að herför Ísraela sé nú farin að hafa áhrif á utanríkisviðskipti Ísraels m.a. hafi Tyrkir sett skorður við innflutningi á landbúnaðavörum frá Ísrael. Þá slitu stjórnvöld í Bólivíu og Venesúela stjórnmálasambandi við Ísrael í gær.(ruv.is)
Hvernig má það vera að Ísrael skuli gera árásir á flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna á Gazasvæði? Er þeim ekkert heilagt.Svo virðist sem alþjóðasamfélagið fordæmi þessar aðgerðir Ísraels ekki nægilega harðlega.En auðvitað ætti að fordæma þessar aðgerðir um allan heim og eðlilegt væri að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael við þessar aðstæður.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.