Mánudagur, 19. janúar 2009
Þorskkvótinn aukinn um 30 þús.tonn.Lækkar það verðið?
Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra hefur ekki áhyggjur af því að verð á þorski hrynji þó þorskvótinn hafi verið aukinn um 30 þúsund tonn. Hann bendir á að nú sé heimilt að geyma kvóta og flytja heimildir milli fiskveiðiára í mun meiri mæli en áður. Þeir sem vilji taka tillit til markaðsaðstæðna geti dregið úr vinnslu.
Hermann Stefánsson, framleiðslustjóri Skinneyjar Þinganess á Hornafirði, sagði í fréttum í gær að markaður með þorskafurðir væri svo erfiður um þessar mundir, að aukinn þorskkvóti yrði að líkindum til þess að auka birgðir framleiðenda og lækka verð. Betra hefði verið að bíða með að auka aflaheimildir.
Fyrir helgi var gefin út reglugerð þar sem hámarksafli í þorski var aukinn um 30 þúsund tonn vegna efnahagsástandsins. Heildaraflamark verður því 160 þúsund tonn á yfirstandandi fiskveiðiári. Ráðherra segir að þetta eigi ekki að hafa áhrif á þorskverð enda séu 30 þúsund tonn aðeins lítið brot af þorski á heimsmarkaði. (ruv.is)
Ég fagna því,að þorskkvótinn hafi verið auknn. Þessi aukning kemur sér vel nú þegar þjóðarframleiðslan dregst saman.Hún eykur þjóðarframleiðslu og bætir því lífskjör. Ég tel,að þessi aukning hafi ekki afgerandi áhrif á verð á þorski erlendis. Þar hefur hin alþjóðlega fjármálakreppa meiri áhrif.Verð á fiski erlendis sveiflast eftir hagsveiflunum. Hins vegar tek ég undir það með Karli Matthíassyni þingmanni Samfylkingar að það hefði átt að setja þessi 30 þús tonn á markað þannig að allir hefðu átt aðgang að þessum kvóta.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.