Þriðjudagur, 20. janúar 2009
Landsframleiðsla dregst saman um 9,6% í ár
Í ár er gert ráð fyrir að landsframleiðslan dragist saman um 9,6%, þrátt fyrir áframhaldandi viðsnúning í þróun utanríkisviðskipta og aukinn þorskkvóta.
Þá er gert ráð fyrir áframhaldandi stóriðjuframkvæmdum í Helguvík en með minni umsvifum árið 2009 en meiri árið 2010. Árið 2010 er spáð að landsframleiðslan standi í stað en einkaneysla dragist áfram saman.
Þetta kemur fram í yfirliti fjármálaráðuneytisisn um stöðu þjóðarbúskpasins. Mat á stöðu ríkissjóðs er mikið breytt frá haustspá vegna áætlunar um meiri tekjusamdrátt, auknar skuldbindingar í tengslum við hrun bankakerfisins og umtalsverð útgjöld vegna vaxtakostnaðar og atvinnuleysisbóta á komandi árum.
Árið 2008 er áætlað tekjuafkoma ríkissjóðs verði lítið eitt neikvæðari en í haustspá, eða 1,5% af landsframleiðslu þegar sumir tekju- og gjaldaliðir hækka frá fyrri spá á meðan aðrir lækka. Hinsvegar er spáð að afkoma ríkissjóðs snúist í mikinn halla árið 2009, eða um 12,3% af landsframleiðslu.
Miðað við það mun ríkissjóður hafa umtalsverð sveiflujafnandi áhrif þegar þungi niðursveiflunnar er mestur. Sambærileg þróun átti sér stað í ríkisfjármálum Svíþjóðar í kjölfar bankakreppunnar þar í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar. Í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að hallinn minnki árið 2010 og verði 10,1% af landsframleiðslu.
Lækkun á gengi krónunnar hefur orsakað aukna verðbólgu sem var 12,4% árið 2008. Áætlað er að verðbólga verði 13,1% árið 2009, sem er aukning um 7,4 prósent frá haustspá. Áætlað er að 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans verði náð árið 2010, þegar verðbólgan verði að meðaltali 2,7%.
Viðskiptahalli á árinu 2008 er nú talinn mun meiri en í fyrri áætlunum, eða um 22,2% af landsframleiðslu, aðallega vegna mun óhagstæðari þróunar þáttatekjujafnaðar sem endurspeglar tekjuflæði milli landa af eignum innlendra og erlendra aðila hér á landi og erlendis. Spáð er að viðskiptajöfnuðurinn snúist í afgang sem nemi 6,1% af landsframleiðslu árið 2009 og 5,6% árið 2010, en slík þróun styður við endurreisn gjaldeyrismarkaðarins. (visir.is)
Þetta er gífurlega mikill samdráttur. En strax árið 2010 er því spáð,að enginn samdráttur verði í þjóðarframleiðslu en að vísu engin aukning heldur.Þetta mun þýða mikla kjaraskerðingu en við getum breytt tekjuskiptingunni,tekið frá þeim,sem meira hafa og látið þá,sem hafa lítið fá meira. Slík tekjutilfærsla er nauðsynlegt við þessar aðstæður.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.