Fimmtudagur, 22. janúar 2009
"Samfylkingin getur ekki vikist undan þeirri ábyrgð að læra af reynslunni"
Skúli Helgason,framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar skrifar leiðara á heimasíðu Samfylkingarinnar.Honum farast m.a. svo orð:
Samfylkingin er jafnaðarmannaflokkur með skýrt umboð til breytinga á íslensku samfélagi. Um það vitnar stefna flokksins í Evrópumálum, atvinnumálum, efnahagsmálum, velferðarmálum og málefnum sem lúta að jafnrétti og lýðræði. Samfylkingin er í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum sem ásamt Framsóknarflokknum ber meginábyrgð á ásýnd og uppbyggingu samfélagsins á síðustu öld. Ríkisstjórn þessara tveggja flokka var mynduð í miðju góðæri en það eru hennar örlög að standa vaktina þegar heimskreppa skellur á þjóðinni, kreppa sem án efa er dýpri fyrir tilverknað stjórnvalda, bankastjórnenda, og auðmanna í atvinnulífinu á undanförnum árum. Þjóðin hefur kallað eftir breytingum, á yfirstjórn Seðlabanka og Fjármálaeftirlits og á yfirstjórn stjórnmálakerfisins. Sumir vilja ríkisstjórnina burt, margir vilja kosningar. Það er mikilvægt að viðurkenna að þessi krafa á fullan rétt á sér. Þjóðin hefur horft upp á kerfishrun, sem hefur afgerandi áhrif á hag heimila og fyrirtækja í landinu, en enginn hefur gengist við ábyrgð sinni með því að víkja úr vegi og rýma til fyrir nýjum einstaklingum sem geti hafið endurreisnarstarfið með hreint borð. Stjórnmálamenningin í landinu er þrándur í götu, það tíðkast ekki að segja af sér hér á landi nema fyrir liggi lögbrot eða sannanir um afglöp í starfi. Og jafnvel þó ráðherrar brjóti lög hafa þeir komist upp með að sitja áfram eins og dæmin sanna. Þetta er óeðlilegt ástand sem kallar á uppstokkun og endurmat. Við eigum gott orð yfir þetta í íslensku, siðbót. Siðbótar er þörf. Það verða stjórnmálaflokkarnir að skynja ef þeir vilja ekki losna úr tengslum við þjóðina.
Samfylkingunni er vandi á höndum. Hún getur haldið því fram, með réttu að hún beri takmarkaða ábyrgð á bankahruninu, því hún sé nýkomin til valda og flestar ef ekki allar þær forsendur innanlands sem leiddu ásamt heimskreppunni til bankahrunsins, hafi verið lagðar af fyrri ríkisstjórn. Gott og vel. Um það verður ekki felldur endanlegur dómur nú. Það er meðal annars verkefni Rannsóknanefndar Alþingis að komast að hinu sanna í þessu efni. En Samfylkingin getur ekki vikist undan þeirri ábyrgð að læra af reynslunni, og hún þarf að taka forystu við hreinsunarstarfið framundan.
Ég tek undir orð Skúla.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.