Þriðjudagur, 27. janúar 2009
Góð aðgerðaráætlun Samfylkingarinnar
Samfylkingin lagði fram aðgerðaáætlun í 10 liðum fyrir Sjálfstæðisflokkinn um helgina, áður en stjórnarsamstarfinu var slitið. Helstu atriðin voru þau að breytingar yrðu gerðar í stjórnkerfinu, þar sem meðal annars yrði skipt um yfirstjórn Seðalbanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. Einnig voru kynntar markvissar aðgerðir í þágu heimila og fyrirtækja auk breytinga á stjórnarskrá til að liðka fyrir aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Áætlunin fer hér á eftir.
1. Fylgt verði efnahagsáætlun ríkisstjórnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) og framkvæmd hennar styrkt með framkvæmdanefnd undir forystu formanna stjórnarflokkanna. Jafnframt verði komið á fót upplýsingamiðstöð sem tryggi greiðari miðlun upplýsinga til almennings um aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að mæta afleiðingum bankahrunsins.
2. Gerðar verði breytingar á stjórnarskrá hvað varðar fullveldi og auðlindir þjóðar. Jafnframt verði lögð fram tillaga um stjórnlagaþing, sem verði kosið til samhliða þingkosningum.
3. Skipt verði um yfirstjórn Seðlabanka Íslands. Lögum um Seðlabanka Íslands verði breytt með þeim hætti, að yfir bankanum sé einn bankastjóri, skipaður út frá alþjóðlegum hæfniskröfum, og að komið verði á fót peningastefnuráði sem fari með ákvarðanir um beitingu allra stjórntækja bankans, þ.e. stýrivaxta, bindiskyldu og lausafjárreglna. Nefnd verði skipuð um endurskoðun peningamálastefnu Seðlabanka.
4. Skipt verði um yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins.
5. Sett verði lög sem tryggi niðurfærslu veðskulda að greiðslugetu óháð veðstöðu láns, bæti réttarstöðu skuldara við upphaf og lok gjaldþrotaskipta, m.a. með afskrift þeirra skulda sem ekki fást greiddar. Búsetuöryggi þeirra fjölskyldna sem missa íbúðarhúsnæði við gjaldþrot og nauðungarsölu tryggi lágmarksröskun á stöðu og velferð fjölskyldunnar.
6. Stofnaður verði Bjargráðasjóður heimilanna til að standa straum af björgunaraðgerðum í þágu heimila í landinu, sem m.a. feli í sér aðgerðir til að lækka greiðslubyrði almennings.. Leitað verði leiða um fjármögnun sjóðsins sem feli í sér aðkomu auðmanna, sem báru ábyrgð á hruni bankakerfisins og tímabundið viðlagagjaldi sem leggist á þá sem hafa háar tekjur.
7. Ákveðnar verði aðgerðir í þágu heimila og fyrirtækja í nánu samráði við aðila vinnumarkaðarins. Áhersla verði lögð á vinnumarkaðsaðgerðir, fjölgun starfa, endurmenntun, úrbætur á námslánakerfinu o.s.frv. Jafnframt komi fulltrúar ríkis og sveitarfélaga með viðræðuumboð að vinnu með öðrum aðilum vinnumarkaðarins um stöðu og horfur í efnahags- og kjaramálum, opinberum fjármálum, velferðar- og skattamálum.
8. Gripið verði til markvissra aðgerða í bankakerfinu til að tryggja þjónustu við skuldsett fyrirtæki. (sjá minnisblað)
9. Breytingar verði gerðar á skipan ráðherra og ráðuneyta.
10. Kosningar til Alþingis verði haldnar 30. maí 2009. Samhliða þingkosningum fari fram þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja eigi um aðild að Evrópusambandinu.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.