Miðvikudagur, 28. janúar 2009
Ný stjórn á laugardag?
Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra segir að enginn ágreiningur hafi verið um það í stjórnarmyndunarviðræðum Samfylkingar og Vinstri grænna að hún verði forsætisráðherra í nýrri stjórn. Þá segir hún sjálfgefið að Ingibjörg Sólrún taki sæti í stjórninni.
Jóhanna sagði þegar hún kom út af fundi klukkan 16 að viðræðurnar hafi gengið vel í dag og er bjartsýn á að ný ríkisstjórn líti dagsins ljós um helgina. Fyrst og fremst er verið að hugsa um næstu tvo mánuði í viðræðunum og að byrjað verði á endurreisn heimila og atvinnulífs. Ekki síst þurfi að skoða stöðu fyrirtækja og heimilin fylgi þar fast á eftir.
Hún segir að fara þurfi í ýmsar aðhaldsaðgerðir og að hún hafi skorið meira niður undanfarið en flestir aðrir ráðherrar. Þannig vísar hún á bug ásökunum um að hún hafi verið eyðslusöm á ráðherrastóli sem meðal annars hafa komið frá Sjálfsstæðisflokknum.
Jóhanna segir að standa þurfi vörð um samkomulagið við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Eignafrystingu þurfi að skoða á sanngjarnan hátt en ekki verði þó gengið á eignarrétt fólks. Hún segir að fjöldi ráðherrastóla hefi ekki verið ákveðinn.
Jóhanna telur að Samfylkingin geti þokast nær umsókn að ESB með samstarfi við Vinstri græna en hægt var með Sjálfstæðisflokknum. Einnig segir hún að barist hafi verið í því síðan í nóvember að ná þeim hreinsunum í Seðlabankanum sem nauðsynlegar eru en það hafi gengið hægt í samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn. Ekki séu þó komnar tillögur um nýja menn í stað þeirra sem nú skipa forystu Seðlabankans. Ekki hefur verið ágreiningur um það að Jóhann verði forsætisráðherra og sjálfgefið sé að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir taki sæti í stjórninni. Ekki hafa verið teknar ákvarðanir um það hvort utanaðkomandi aðilar taki sæti í stjórninni. Að lokum sagði Jóhanna að nú þurfi sterka ríkisstjórn sem vinnur með þjóðinni, velferðarstjórn sem ekki var möguleg með Sjálfstæðisflokknum. Aðspurð segist Jóhanna gáttuð á því að Einar skuli hafa heimilað hvalveiðar sem skaðar ímynd landsins á viðkvæmum tíma og á von á að ákvörðunin verði dregin til baka.(ruv.is)
Fólk bíður í eftirvæntingu eftir því að fá hina nýju stjórn Samfylkingar og VG.Margir telja tíma til kominn að Sjálfstæðisflokkurinn fái fri frá landsstjórninni ekki síst vegna þess að sá flokkur á stærsta þáttinn i hruni bankanna.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.