Föstudagur, 30. janúar 2009
Nýja stjórnin að komast á koppinn
Nýja ríkisstjórnin er nú alveg að komast á koppinn. Búist er við að stjórnin verði tilbúin seinna í dag eða í fyrramálið.Margir undrast hvað það tekur langan tíma fyrir Samfylkingu og VG að mynda stjórn sem aðeins á að sitja í 3 mánuði að hámarki. Þegar þeir Jón Baldvin og Davið Oddsson mynduðu Viðeyjarstjórnina tók það aðeins augnablik að mynda stjórnina.Stjórnarsáttmálinn var örstuttur. Mjög er misjafnt hvernig menn vinna í þessu efni. Stundum er hafður ítarlegur stjórnarsáttmáli en stundum örstuttur. Ég hygg að hjá núverandi stjórnarflokkum verði sáttmálinn frekar ítarlegur. Samfylking og VG vinna þannig,að þessir flokkar fara mikið í smáatriði.
Útlit er fyrir,að tveir utanaðkomandi menn verði í stjórninni,Gylfi Magnússon dósent verði viðskiptaráðherra og Björg Thorarensen verði sennilega dómsmálaráðherra. Hvor flokkur um sig hafi 5 ráðherra og kynjaskipting verði jöfn.Umbúðir stjórnarinnar verða því góðar en vonandi verður innihaldið það líka. Þetta er mjög stuttur tími,sem er til stefnu. Það ríður því á að gera markvissar ráðstafanir. Það er búið að tala mikið undanfarnar vikur og raunar síðan í haust um að hjálpa þurfi heimilum og fyrirtækjum í landinu. Nú er komið að framkvæmdum. Væntanlega verður úr þeim.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.