Miðvikudagur, 11. febrúar 2009
Svört skýrsla ASÍ
ASÍ telur horfur á vinnumarkaði dökkar fram til ársins 2011 og að útlit sé fyrir 8-9% atvinnuleysi næstu þrjú árin. Ólíklegt sé að dragi úr atvinnuleysi fyrr en á síðari hluta ársins 2011. Þetta kemur fram í Hagskýrslu ASÍ sem birt var í dag. ASÍ býst við að verðbólga gangi hratt niður á næstu mánuðum og verði komin undir 3% í lok þessa árs.
Samhliða lækkandi verðbólgu megi búast við að Seðlabankinn lækki stýrivexti. Þá telur ASÍ útlit fyrir að niðursveiflan verði bæði dýpri og lengri en spár í haust gerðu ráð fyrir.
Það er heldur dökk mynd sem dregin er upp af horfum í efnahagslífinu næstu misserin í nýrri skýrslu hagdeildar ASÍ. Þar segir að framundan sé mesta samdráttarskeið sem íslenskt efnahagslíf hefur gengið í gegnum á síðari árum. Ekki fari að rofa til fyrr en árið 2011.
Atvinnuleysi verði 8-9% næstu þrjú árin. Landsframleiðsla dragist saman um rúm 9% á næsta ári og tæp 2% árið þar á eftir. Talsvert muni draga úr kaupmætti. Í skýrslunni segir að útlit sé fyrir að niðursveiflan verði bæði dýpri og lengri en fyrstu spár í kjölfar bankahrunsins í haust gerðu ráð fyrir.
Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ, segir að því miður sé þetta alveg kolsvört skýrsla. Smá ljóstíra felist í því að verðbólga geti gengið niður þegar líður á árið. Vonandi innan mjög fárra mánaða förum við að sjá 12 mánaða verðbólgu ganga mjög hratt niður. Verðbólgan gæti verið orðið skapleg í árslok 2009 eða í lok þessa árs. Á næsta ári verði verðbólga lítil sem engin og jafnvel gæti orðið verðhjöðnun.(visir.is)
Vonandi verður þróunon ekki alveg eins slæm og ASÍ spáir. Bankamálasérfræðingur ríkisstjórnarinnar var mun bjartsýnni.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.