Laugardagur, 14. febrúar 2009
Valgerður hættir í stjórnmálum
Framsóknarflokkurinn fékk sjö þingmenn kjörna í þingkosningunum vorið 2007. Fjórir þeirra verða ekki í framboði fyrir flokkinn í kosningunum í vor, en það eru Guðni Ágústsson, Bjarni Harðarson og Magnús Stefánsson auk Valgerðar.
Valgerður segist taka þessa ákvörðun í sátt við alla þá sem hún hafi starfað með og með þakklæti og virðingu fyrir þeim störfum og embættum sem hún hafi gegnt á löngum starfsferli.
,,Ég hef setið á Alþingi í 22 ár og verið ráðherra frá árinu 2000 til ársins 2007. Fyrst ráðherra iðnaðar- og viðskiptamála og síðan utanríkisráðherra. Ég var fyrsta konan sem gegndi þessum embættum. Ég var einnig fyrsta konan sem gegndi formennsku í þingflokki framsóknarmanna, embætti varaformanns Framsóknarflokksins, og síðar formanns, tímabundið frá nóvember til janúar s.l. Ég er ákaflega þakklát fyrir hafa verið valin til þeirra embætta, enda löngu tímabært að konur gegndu æðstu stöðum á vettvangi stjórnmálanna til jafns við karla," segir Valgerður.
Valgerður segir unga og glæsilega kynslóð hafa tekið við forystu í Framsóknarflokknum. ,,Ég efast ekki um að með þetta öfluga fólk við stjórnvölinn á Framsóknarflokkurinn alla möguleika á að eflast og skila góðu verki í þágu þjóðarinnar."
Við þessar aðstæður er eðlilegt að þeir sem lengi hafa verið ráðherrar og frambjóðendur fyrir Framsóknarflokkinn stígi til hliðar, segir Valgerður, og ýta þannig undir nauðsynlega endurnýjun og kynslóðaskipti í stjórnmálunum.
,,Það eru forréttindi að hafa verið trúað fyrir starfi alþingismannsins og vil ég þakka stuðningsmönnum í kjördæminu sem valið hafa mig sem fulltrúa sinn á Alþingi innilega fyrir traustið. Ég er einnig þakklát þingflokknum fyrir að hafa kosið mig til mikilvægra embætta. Þá vil ég þakka öllum þeim fjölmörgu sem ég hef starfað með að mikilvægum framfaramálum á starfsferlinum. Síðast en ekki síst vil ég þakka flokksmönnum almennt fyrir ánægjulegt samstarf og stuðning á þeim tíma sem ég gegndi forystustörfum í Framsóknarflokknum," segir Valgerður.(visir.is)
Það verður eftirsjá af Valgerði af þingi en hún hefur verið mjög öflugur stjórnmálamaður.En hún þekkir sinn vitjunartíma og skynjar,að skynsamlegt er að rýma fyrir yngra fólki. Valgerður var einnig í lykilhlutverki við einkavæðingu bankanna og þróunar þeirra í kjölfarið. Hún ber því vissulega sinn hluta af ábyrgðinni á hruni bankanna. Mestu ábyrgðina bera þó Geir Haarde ,Davíð og Halldór Ásgrímsson. Halldór afrekaði það að eyðileggja Framsóknarflokkinn með því að hanga svo lengi í stjórn með íhaldinu ,að fylgið hrundi allt af Framsókn. Þetta gerði Halldór allt til þess að fá að vera í stuttan tíma forsætisráðherra.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.