Þriðjudagur, 17. febrúar 2009
Bankastjórarnir gagnrýna Seðlabankafrumvarp
Seðlabankastjórarnir, Davíð Oddsson og Eiríkur Guðnason, gagnrýna harðlega breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands. Segja þeir mjög mikilvægt að kasta ekki til höndunum við breytingar á lögunum. Sýna þurfi mikla gát og vandvirkni til að fyrirbyggja að úr verði stjórnsýslubastarður, sem geri stjórnina óskilvirka og valdi tortryggni innan sem utan bankans.
Núgildandi lög voru samin í heild og nutu stuðnings allra flokka á þingi. Engin breyting hefur verið gerð á þeim. Það yrði mikið óláns- og óhappaverk ef hlaupið yrði í illa grundaðar og illa undirbúnar breytingar í annarlegum tilgangi, sem engin sátt yrði um innan þings eða utan. Ekkert væri verr til þess fallið að verja hróður bankans og styrkja trúverðugleika hans, sem margur hefur þó á vörunum að sé æskilegt," að því er segir í umsögn Seðlabanka Íslands um frumvarp til laga um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands.
.
Segir ennfremur í umsögninni að efnisbreytingar samkvæmt frumvarpinu eru í meginatriðum tvær. Annars vegar er lagt til að bankastjórn Seðlabanka Íslands verði aflögð og skipaður verði einn faglegur seðlabankastjóri, eins og það er orðað, sem stýrir bankanum og hins vegar að innan bankans starfi svokölluð peningastefnunefnd sem hafi það hlutverk að taka ákvarðanir um beitingu stjórntækja bankans í peningamálum.
Seðlabankastjórar hafa í morgun komið á fund viðskiptanefndar Alþingis vegna frumvarps um Seðlabankann, sem er til meðferðar í nefndinni. Ingimundur Friðriksson, sem sagði af sér embætti seðlabankastjóra í síðustu viku, kom á fund nefndarinnar klukkan 8:30 en Davíð Oddsson og Eiríkur Guðnason, komu klukkan 9.
Þeir Davíð og Eiríkur segja í umsögninni að það efnahagsáfall sem yfir hefur dunið gefi vissulega tilefni til að huga að löggjöf um Seðlabanka Íslands. Þær breytingar sem þar eru lagðar til myndu engu breyta um stöðu eða styrk bankans til að hafa áhrif á atburðarás eins og þá sem varð.
Ríkt tilefni væri til að fara yfir skyldur Seðlabankans við slíkar aðstæður, þau úrræði sem honum eru búin og verkaskiptingu stofnana á borð við Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlit, svo dæmi sé tekið. Nú þykir mörgum sem láta sig þessi mál varða og best þekkja til að rétt sé að kanna hvort ekki eigi að efla fjármálaeftirlit við yfirsýn og yfirstjórn regluverks á fjármálamarkaði (regulation) en um leið styrkja umsjónarvald og ábyrgð Seðlabanka gagnvart bankalegum þáttum (supervision, inspection) og draga um leið úr gráum svæðum milli slíkra stofnana. Fyrirliggjandi frumvarp tekur ekki með neinum hætti á slíkum þáttum né öðrum jafn brýnum. Þetta eru þó þeir þættir sem mest eru ræddir í þeim löndum sem lent hafa í áþekkum efnahagslegum áföllum og Ísland."(mbl.is)
Oft áður hefur verið rætt um það,að nóg væri að hafa einn bankastjóra í Seðlabankanum.Það er ekki ný tillaga.En athugasemd bankastjóranna um að efla fjármálaeftirlit bankans og umsjónarvald er athyglisverð og finnst mér hún vel koma til álita.
Björgvin Guðmundsson

Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.