Þriðjudagur, 24. febrúar 2009
DO;Seðlabankinn gerði ekki mistök
Davíð Oddsson seðlabankastjóri neitaði í Kastljósviðtali í kvöld að Seðlabankinn hefði gert mistök í bankahruninu. Þvert á móti hafi Seðlabankinn haldið öllu uppi eftir að bankarnir hrundu. Seðlabankinn hafi tryggt að greiðslukerfið virkaði.
Menn sem gagnrýni seðlabankann ættu að skoða störf hans. Þegar þurft hafi að koma greiðslum til landsins hafi allir treyst á seðlabankann. Stjórnendur hans hafi fyllt bankann af fólki úr hinum bönkunum til að halda kerfinu gangandi. Hann sakar Jóhönnu Sigurðardóttur um árás á seðlabankann.
Niðurstaða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé að Seðlabankinn fái hæstu einkunn. Seðlabankinn hafi fengið einkunnina A, ríkisstjórnin B en Viðskiptaráðuneytið hafi fengið einkunnina C. Fleyting á krónunni hafi heppnast vel.
Hann dró í efa að kannanir sem sýndu að 90% þjóðarinnar vildu hann úr bankanum væru marktækar. Hann efist um að kannanir Baugsmiðla hefðu verið gerðar í raun.
Hann segir að bankinn hafi varað ríkisstjórn og bankana við allan tímann. Bankarnir hafi sýnt mikinn hagnað. Allir hafi trúað að þetta væru galdrameistarar. Seðlabankinn hafi varað við því að menn settu inn óefnislegar eignir í bókhald. Seðlabankinn hafi kvatt til þess að bankakerfið yrði minnkað.
Bindiskyldan hafi verið lækkuð 2003 til að laga reglurnar að reglunum í Evrópusambandinu til að íslensku bankarnir sætu við sama borð og aðrir bankar erlendis. Hann hafnar því að hækkun bindiskyldu hefði komið til hjálpar. Bindiskyldan hafi ekki haft áhrif á bankanna. Hún hefði þrengt að hag innlendra sparisjóða. Bankarnir hafi hinsvegar haft endalausan aðgang að erlendu ódýru fjármagni. Þetta sé eitt af því sem menn hafi notað til að sverta seðlabankann.
Hann segir að gjaldeyrisforðinn hafi verið í stærra lagi miðað við allt annað en stærð bankanna. Ef hann hefði átt að elta stærða bankanna og útrásarvitleysuna værum við stórskuldug þjóð.
Davíð var spurður að því hvað hann viti um hvað olli því að Bretar beittu hryðjuverkalögum. Hann spurði á móti hvort menn hefðu heyrt það einhverstaðar frá Bretum að kastljósviðtal hans á síðasta ári hafi valdið því. Ekki sé útilokað að þegar menn sáu að íslenskir aðilar tóku peninga út úr stofnunum sem lutu bresku eftirliti hafi menn orðið hræddir um að það gerðist í stofnunum sem ekki lutu eftirliti breskra yfirvalda. Bretar hafi verið hræddir. Hann segist vita að fyrst hafi verið millifærðar 400 milljónir punda, næst 800 milljónir punda og svo ótilgreind hærri upphæð.
Hann hafi komið á ríkisstjórnarfund 30. september. Þá hafi hann sagt við ríkistjórnina að allt íslenska bankakerfið yrði komið á höfuðið innan 2-3 vikna. Þá hafi verið sagt að óþarfi væri að dramatísera hlutina. Hann hafi bætt því við að ef einhvertíma væri grundvöllur fyrir þjóðstjórn væru slík skilyrði að skapast. (ruv.is)
Menn höfðu reiknað með því,að Davíð mundi upplýsa hvers vegna Bretar hefðu sett á okkur hryðjuverkalög en að gerði hann ekki. Ekki var að heyra á Davíð að hann ætlaði aftur í pólitíkina.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.