Fimmtudagur, 12. mars 2009
Ris og fall Baugs
Fall Baugs er sorgarfregn.Uppbygging Baugs var ævintýri líkast.Stofnendur,feðgarnir Jóhannes og Jón Ásgeir byrjuðu með tvær hendur tómar og stofnuðu fyrst eina Bónus verslun. Þeir ráku verlsunina vel,lækkuðu vöruverð og viðtökur voru frábærar. Íslendingar Þekkja framhaldið.Hver verslunin á fætur annarri bættist við. Nú segir Jón Ásgeir,að hann hefði átt að halda sig við Bónus búðirnar. Það kann að vera rétt. En eftir að Bónus keðjan hafði eignast Hagkaup og fleiri fyrirtæki var Baugur stofnaður og úrás til annarra landa hafin.Í fyrstu virtist þetta ganga mjög vel.Baugur fékk útflutningsverðlaun forseta Íslands i fyrra.Það sem almenningur vissi ekki varðandi uppgang Baugs var hvað félagið var skuldsett.Menn héldu,að fjárfestingar hefðu í ríkari mæli en var verið fjármagnaðar með eigin fé.Það kemur einnig á óvart hvað fjárrmögnunin var að miklu leyti byggð á lánsfé úr íslenskum bönkum. Eðlilegra hefði verið að erlendir bankar hefðu fjármagnað Baug þar eð starfsemin var að mestu leyti erlendis.
Ég tel,að Baugur hafi færst of mikið í fang.Útþenslan var of mikil.Þetta var einkenni á mörgum fyrirtækjum í góðærinu,þar á meðal á bönkunum. Lögð var meiri áhersla á stækkun,útþenslu en traustan grundvöll og góða afkomu.Víst á hin alþjóðlega kreppa stóran þátt í hruni Baugs,ef til vill stærsta þáttinn. En án tillits til alþjóðlegrar kreppu hefði Baugur samt orðið að rifa seglin og treysta grundvöllinn.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.