Fimmtudagur, 12. mars 2009
Verður tilkynnt um þingrof á morgun?
Afgreiðsla mála hefur gengið hratt fyrir sig á Alþingi í dag, enda mikil áhersla lögð á að afgreiða sem flest mál áður en þing lætur af störfum fyrir kosningar. Þannig hafa þingmenn lokið fyrstu umræðu um þrettán mál og umræður standa nú yfir um hið fjórtánda. Annarri umræðu er lokið í tveimur málum og þingið hefur afgreitt eina þingsályktunartillögu. Að auki hafa ráðherrar svarað fyrirspurnum þingmanna og ein utandagskrárumræða hefur farið fram. Líklegt er talið að þingrof verði tilkynnt á morgun.
Þetta er allt annar hraði en verið hefur á afgreiðslu mála á Alþingi undanfarna daga. En í gær ræddu þingmenn til dæmis í tólf klukkustundir um stjórnlagafrumvarpið, sem reyndar er flutt í mikilli andstöðu við þingmenn Sjálfstæðisflokksins.
Leiðtogar stjórnarflokkanna funduðu í hádeginu í dag með forystumönnum annarra flokka á þingi, þar sem reynt var að komast að samkomulagi um þinglok. En í dag rann upp hámarksfrestur fyrir forsætisráðherra til að tilkynna um þingrof. Forystumönnum flokkanna tókst ekki að innsigla samkomulag á fundinum og hefur annar fundur verið boðaður um framgang mála á Alþingi klukkan fimm.
Sjálfstæðismenn hafa boðið upp á samkomulag um stjórnlagafrumvarpið en ekki er víst að forystumenn stjórnarflokkanna og forysta Framsóknarflokksins fallist á tillögur Sjálfstæðismanna. Líklegt er að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra tilkynni um þingrof á þingfundi á morgun en þingstörfum er lokið í dag. Þá verði jafnframt ákveðið hvað þingið sitji lengi fram að kosningum og hvaða mál fái afgreiðslu áður en þingmenn fara heim.(visir,is)
Það er gott,að þingstörf ganga betur en áður. Væntanlega tekst að afgreiða mikilvægustu málin áður en þingi verður slitið.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.