Samfylkingin stærst,með 33%

Grasrótarframboðin nýju fá engan fulltrúa inn á Alþingi Íslendinga samkvæmt nýrri könnun Stöðvar tvö og Fréttablaðsins á fylgi flokkanna. Samfylkingin er stærsti stjórnmálaflokkur landsins og hefur fylgið lítið breyst eftir brotthvarf Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur úr stjórnmálum.

Endurnýjun, raddir fólksins, kosningar strax voru slagorðin sem ómuðu í búsáhaldabyltingunni. Nú styttist í kosningar, tvær nýjar hreyfingar hafa ákveðið að bjóða fram og stefna að framboðum í öllum kjördæmum - en ef marka má nýja könnun Stöðvar tvö, sem gerð var í gær, njóta þessar nýju hreyfingar lítils stuðnings.

L listinn með Bjarna Harðarson og séra Þórhall Heimisson í broddi fylkingar fengi 1,6 prósent atkvæða og engan mann á þing. Borgarahreyfingin sem segir fjórflokkakerfið rotið, nær ekki að hrófla við því, og fengi 2 prósent atkvæða.

Samfylkingin er stærsti flokkurinn samkvæmt þessari könnun, fengi 33 prósent atkvæða og eykur fylgi sitt um rúm tvö prósent frá því í febrúar. Allar breytingar milli mánaða í þessari könnun eru þó innan skekkjumarka.

Hinn ríkisstjórnarflokkurinn, Vinstri grænir, dalar um tæp þrjú prósent milli mánaða en tæp 22 prósent kváðust í gær myndu kjósa hann. Fylgi Sjálfstæðisflokksins dregst lítillega saman og er nú nærri 27%. Framsóknarflokkurinn stendur í stað með rúm tólf prósent og sömuleiðis Frjálslyndir sem fengi rúm 2 prósent atkvæða og næðu ekki manni inn á þing.

Niðurstaðan byggist á 800 svörum sem skiptist jafn á milli karla og kvenna og hlutfallslega eftir búsetu.(visir.is)

Það er ánægjulegt,að sjá fylgi Samfylkingarinnar.Hún er greinilega að uppskera fyrir trausta stjórnarforustu í minnihlutastjórninni.Stjórnin hefur lagt hvert málið á fætur öðru fyrir þing að undanförnu og nokkur eru orðin að lögum. Tilkynnt var í gær,að vaxtabætur yrðu hækkaðar um 25%.

 

Björgvin Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband