Árni Páll og Illugi nýir leiðtogar í stjórnmálunum

Illugi Gunnarsson hreppti efsta sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokks í Reykjavík. Illugi fékk ríflega helmingi fleiri atkvæði í fyrsta sætið en keppinautur hans Guðlaugur Þór Þórðarson sem hafnaði í öðru sæti. Alls tóku tæplega 8 þúsund manns þátt í prófkjörinu en talningu lauk skömmu fyrir miðnætti í gær. Pétur Blöndal hlaut þriðja sætið og Ólöf Nordal fjórða. Þar á eftir komu þeir Sigurður Kári Kristjánsson og Birgir Ármannsson. Ásta Möller hafnaði í sjöunda sæti og Erla Ósk Ásgeirsdóttir í því áttunda.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hlaut 78 prósent atkvæða í fyrsta sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík sem lauk í gær. Jóhanna hlaut 2.766 atkvæði en alls voru greidd 3.543 atkvæði í prófkjörinu. Innan við helmingur flokksmanna tók þátt í prófkjörinu en kjörsókn var 45,8 prósent. Össur Skarphéðinsson iðnaðar- og utanríkisráðherra varð í öðru sæti og Helgi Hjörvar í því þriðja.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir kemur ný inn á listann í fjórða sæti eins og Skúli Helgason sem lenti í fimmta sætinu og Valgerður Bjarnadóttir í því sjötta. Steinunn Valdís Óskarsdóttir er í sjöunda sæti og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir félagsmálaráðherra í áttunda sæti. Hún var lengi framan af mun neðar á listanum og leit út fyrir að hún næði ekki mögulegu þingsæti, en Samfylkingin hefur nú átta þingmenn í Reykjavík. Margt bendir því til að Ásta Ragnheiður hafi átt töluvert af utankjörfundaratkvæðum, en kosningin fór annars fram á Internetinu.
Mörður Árnason fyrrverandi þingmaður, sem nú situr sem varamaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur á Alþingi, er í níunda sæti og í því tíunda er Anna Pála Sverrisdóttir formaður Ungra jafnaðarmanna, sem framan af kvöldi var lengi í áttunda sætinu.

Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins, sem lýst hefur yfir vilja til að leiða Samfylkinguna fari Jóhanna ekki í formannsframboð, hafnaði í þrettánda sæti.
Rúmlega 5 þúsund kusu í prófkjöri Sjálfstæðisflokks í Suðvesturkjördæmi en talningu lauk um klukkan ellefu í gær. Röð efstu manna er sem hér segir: Bjarni Benediktsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Ármann Kr. Ólafsson, alþingismaður, sem sóttist eftir 2. til 3. sæti hafnaði í sjöunda sæti. 


Árni Páll Árnason alþingismaður sigraði í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi sem lauk í gær, með rúmlega 42 prósent í fyrsta sæti listans. en hann var í fjórða sæti hans fyrir síðustu kosningar. Gunnar Svavarsson var þá í fyrsta sæti en gaf ekki kost á sér nú.

Katrín Júlíusdóttir hlaut annað sætið, eins og hún hafði áður og Lúðvík Geirsson bæjarstjóri í Hafnarfirði, sem stefndi á fyrsta sætið, lenti í þriðja sæti. Þórunn Sveinbjarnardóttir fyrrverandi umhverfisráðherra varð í fjórða sæti, sem hingað til hefur verið baráttusæti flokksins í kjördæminu. Magnús Orri Schram, sem er nýr á lista, lenti í fimmta sæti, en kosning var bindandi í fyrstu fimm sætin í prófkjörinu.


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir sigraði í forvali Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi í gær og hlaut 64 prósent atkvæða í fyrsta sætið. Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra sem sóttist eftir öðru sætinu, fékk það sæti.

Vinstri grænir eru nú með einn þingmann í kjördæminu og því ljóst að flokkurinn þarf að bæta við sig fylgi frá síðustu kosningum til að Ögmundur nái kjöri, en skoðanakannanir að undanförnu benda til þess að það takist. Í þriðja sæti er Ólafur Þór Gunnarsson og Andrés magnússon er í fjórða sæti.

Ragnheiður Elín Árnadóttir hreppti fyrsta sætið í prófkjöri flokksins í Suðurkjördæmi en þar kusu um 4 þúsund manns. Árni Johnsen varð í 2. sæti og Unnur Brá Konráðsdóttir í því þriðja. Þingmennirnir Kjartan Ólafsson og Björk Guðjónsdóttir, náðu ekki öruggum sætum í prófkjörinu. (visir.is)

Það eru mikil tíðindi,að Illugi skyldi fara upp fyrir Guðlaug Þór í prófkjörinu. Með því hefur hann tryggt sér ráðherrasæti þegar íhaldið fer á ný í stjórn.Hið sama er að segja um Árna Pál.Hann hefur tryggt sér ráðherrasæti í stjórn Samfylkingar eftir kosningar.

 

Björgvin Guðmundsson










« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband