Mánudagur, 16. mars 2009
Ríkið þarf ekki að leggja bönkunum til eins mikið fé og reiknað var með
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, telur ríkinu duga að leggja nýju bönkunum til talsvert lægri fjárhæð til endurreisnar þeirra en áður var áætlað. Bankarnir verða minni en búist hafði verið við. Endanlegt mat á stöðu bankanna á að liggja fyrir um næstu mánaðamót.
Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vakti máls á endurreisn bankakerfisins á Alþingi í dag og sagði þingið skorta upplýsingar um framgang mála. Samþykkt hefði verið að veita bankakerfinu um 380 milljarða í eigið fé þegar mati á eignum þeirra væri lokið. En það er mikilvægt að vanda mjög til verka, sagði Bjarni. Einungis 10% frávik í heildarvirði eigna nýja bankkerfisins myndi leiða til þess að allt þetta eigið fé myndi fuðra upp, allir 380 milljarðarnir. Ef kerfið er jafn stórt og gefið sé til kynna og óvissan um virði eignanna svona mikil geti 10% ofmat á heildareignunum koma til með að þurrka upp alla þá 385 milljarða, sem vilji hefði verið til að leggja nýja bankakerfinu til.
Mikilvægt er að mismunurinn lendi ekki á almenningi, bætti Bjarni við. Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, var hins vegar bjartsýnn á viðuandi niðurstöðu.
Í efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi verið gert ráð fyrir að eigið fjár framlag ríkisins yrði 385 milljarðar en nú virðist hins vegar allt útlit fyrir að talsvert lægri fjárhæð dugi, þó ekki liggi fyrir hver hún verði. Skýringin sé fyrst og fremst sú að það stefni í að bankarnir verði talsvert minni en gert hafi verið ráð fyrir
Aðkoma erlendra kröfuhafa að rekstri bankanna gæti jafnframt orðið tl þess að lækka megi framlag ríkisins. Gylfi sagði óvíst hve margar fjármálastofnanir verða og hverjir munu eiga þær. Aðalatriðið sé að allt stefni í að Ísland verði þegar upp er staðið komið með heilbrigt og vel fjármagnað bankakerfi sem vel geti staðið undir þörfum íslensks atvinnulífsins. Að því leyti verði Ísland jafnvel fyrr en varir litin öfundaraugum af ýmsum nágrannaþjóðum sem ekki hafi neyðst að fara í viðlíka tiltekt í sínum fjármálakerfum þrátt fyrir verulega veikleika.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.