Fimmtudagur, 19. mars 2009
Jóhanna býður sig fram til formanns
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur ákveðið að bjóða sig fram til formanns Samfylkingarinnar á komandi landsfuni flokksins. Jóhanna segir að í ljósi prófkjörsins í Reykjavík og þeirrar miklu hvatningar og eindregnu óska um að hún gefi kost á sér hefur hún tekið fyrrgreinda ákvörðun.
Ég er afar þakklát fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt og vil ekki skorast undan því að leggja mitt af mörkum við að leiða flokkinn í einum mikilvægustu kosningum í sögu lýðveldisins," segir Jóhanna í tilkynningu sem barst fyrri stundu.
Við jafnaðarmenn fengum það hlutskipti að leiða vinstristjórn eftir einhver harkalegustu áföll sem íslenskt efnahagslíf hefur orðið fyrir. Verkefnið er hins vegar rétt að hefjast. Brýnt er að því verði fylgt eftir af festu og að við stjórn landsins fari saman ábyrg efnahagsstjórn og félagslegar áherslur. Því tel ég áríðandi að Samfylkingin gegni áfram lykilhlutverki í endurreisnarstarfinu, með jafnræði og samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi.
Á þeim viðsjárverðu tímum sem nú eru á Íslandi er nauðsynlegt að allir leggi hönd á plóg og sem forsætisráðherra get ég ekki gert minni kröfur til sjálfrar mín en annarra í þeim efnum. Með framboði mínu til formanns Samfylkingarinnar lýsi ég yfir að ég er reiðubúin að leiða flokkinn og ríkisstjórn undir hans forystu í því veigamikla uppbyggingarstarfi sem nú er hafið." (visir.is)
Það er ánægjuefni,að Jóhanna skuli bjóða sig fram til formanns.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.