Þriðjudagur, 24. mars 2009
Samningar ASÍ og SA í uppnámi
Bullandi óánægja er innan Samtaka atvinnulífsins, SA, með þá ákvörðun nokkurra fyrirtækja að greiða áður umsamdar launahækkanir frá 1. mars, þrátt fyrir að samninganefndir SA og ASÍ hafi samið um frestun kjarasamninga fram á sumar.
HB Grandi reið á vaðið eftir mjög neikvæða umræðu um arðgreiðslur til eigenda HB Granda. Fleiri fyrirtæki fylgdu í kjölfarið og fjölmörg fyrirtæki íhuga að greiða launahækkanir frá 1. mars.
Það er stóralvarlegt mál að grafa undan því samkomulagi sem gert var milli samninganefnda SA og ASÍ í febrúar um frestun kjarasamninga fram á sumar. Við sjáum það bara á fjölgun á atvinnuleysiskrá. Það er engin tilviljun að fyrirtækin vilja fá að fresta launahækkunum. Um það var samið þannig að það er ekkert um það að ræða að fyrirtæki séu að brjóta samninga þegar þau fresta launahækkunum, segir Vilhjálmur Egilsson.
Hann segir HB Grandamálið sérstakt mál. Það sé ekkert að því að fyrirtæki þurfi að réttlæta sínar gjörðir gagnvart sínu starfsfólki, en það sem þar var á ferðinni sé allt annars eðlis. Auk þess sé ekki gott fyrir eitt fyrirtæki að vera komið í baráttu við forsætisráðherra landsins.
Ef við tökum HB Granda út fyrir sviga, þá hafa menn í öðrum tilvikum verið að taka óyfirvegaðar skyndiákvarðanir. Og þetta getur auðveldlega grafið undan samningnum við ASÍ. Sú hætta er fyrir hendi ef fyrirtæki, undir þrýstingi, hækka laun með þessum hætti, að þá flæði það yfir á önnur fyrirtæki óháð þeirra stöðu og leiði til enn meiri vandræða. Þá verða líklega uppsagnarbréfin með kveðju frá þeim sem hafa verið að grafa undan samningnum, segir Vilhjálmur.
Hann segir að þegar eitt fyrirtæki hækkar laun þá skapist þrýstingur á aðra. Þar með sé verið að skapa óraunhæfar væntingar í fyrirtækjunum. Þrýstingurinn hafi bæði komið frá þeim verkalýðsfélögum sem hvað harðast hafa beitt sér og ekki síður frá Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra.
Mér fundust afskipti hennar mjög óeðlileg af viðkvæmri deilu og þeir sem eru að beita þessum þrýstingi eru að leika sér að störfum félaga sinna, segir Vilhjálmur en hann situr nú á fundi með Gylfa Arnbjörnssyni, forseta ASÍ og ræðir stöðu samkomulagsins sem gert var milli ASÍ og SA í febrúar.
Við getum auðvitað hrakist í þá stöðu að framlengja ekki gildandi kjarasamning frá 1. júlí, með öðrum orðum að það verði engar hækkanir 1. júlí og það verði fullkomin upplausn og óvissuástand.(mbl.is)
Það yrði mjög slæmt,ef samningur ASÍ og SA héldu ekki.Í því atvinnuástandi sem nú er þá er mjög mikilvægt að samkomulag haldist og verkafólk fái umsamdar kaunahækkanir.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það sem er að grafa undan samkomulaginu um að fresta launahækkun 1. mars er það að þetta var hugsað fyrir illa stödd fyrirtæki. Hins vegar þegar mörg fyrirtæki eru að skila verulegum hagnaði þá eru ekki lengur forsendur eða sanngjarnt að fresta þessari hækkun.
Jakob Falur Kristinsson, 24.3.2009 kl. 17:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.