Föstudagur, 27. mars 2009
Geir baðst afsökunar á landsfundi
Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í setningarræðu landsfundar flokksins nú síðdegis, að sjálfstæðismönnum hefði orðið á mikil mistök með því að falla frá stefnumótun um dreifða eignaraðild þegar bankarnir voru einkavæddir fyrir sex árum.
Ég ber mína ábyrgð á því að svona var búið um hnútana á sínum tíma og á þeim mistökum er rétt að biðjast afsökunar. Geri ég það hér með. Sama er að segja um annað sem miður fór og var í okkar valdi og hefði mátt gera betur. En ég get ekki beðist afsökunar á afglöpum eða lögbrotum fyrirferðarmikilla manna í bönkum eða atvinnulífi sem fóru offari með mjög skaðlegum afleiðingum," sagði Geir.
Hann sagði, að sjálfstæðismönnum hefðu vissulega orðið á margs konar mistök við stjórn landsmála. Það hefðu verið mistök að fallast á kröfu framsóknarmanna um 90% húsnæðislán að loknum kosningunum 2003. Að
sama skapi megi gagnrýna tímasetningar skattalækkana á því kjörtímabili.
En stærstu mistök okkar sjálfstæðismanna sem tengjast bankakerfinu og hruni þess voru gerð við einkavæðingu bankanna fyrir rúmlega sex árum. Með því að falla frá þeirri stefnumörkun sem ákveðin hafði verið um dreifða eignaraðild urðu okkur á mikil mistök. Þegar eigendur bankanna gerðust
umsvifamiklir í atvinnulífinu og eignatengsl milli viðskiptablokka urðu gríðarlega flókin og ógegnsæ var stöðugleika bankakerfisins ógnað. Hefðum við sjálfstæðismenn haldið fast við okkar upphaflega markmið um dreifða eignaraðild eru líkur á því að bankarnir hefðu ekki verið jafn sókndjarfir og áhættusæknir og raunin varð," sagði Geir.
Hann sagði að það breytti ekki öllu um ábyrgð sjálfstæðismanna á mistökum við einkavæðingu bankanna að eftirlit með óeðlilegum viðskiptaháttum og skaðlegum eignatengslum hefði verið á höndum annarra flokka frá árinu 1991.(mbl.is)
Það hefur vakið mikla athygli,að Geir skyldi biðjast afsökunar á landsfundi enda þótt afsökunin væri á mjög þröngu sviði.Það,sem skiptir að mínu mati mestu máli er,að eftirlit FME,Seðlabanka og stjórnvalda með bönkunum brást.Þessir aðilar allir sváfu á verðinum og því fór sem fór.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.