Þriðjudagur, 31. mars 2009
Lög um greiðsluaðlögun samþykkt á alþingi
Alþingi samþykkti í dag með 46 atkvæðum ný lög um greiðsluaðlögun. Með lögunum verður til nýtt úrræði fyrir einstaklinga sem komnir eru í mikinn greiðsluvanda. Dómsmálaráðherra mælti fyrir þessu frumvarpi í byrjun febrúar og hefur það verið til umfjöllunar í allsherjarnefnd Alþingis.
Þeir munu geta leitað nauðasamninga um að afborganir af samningskröfum miðist við greiðslugetu þeirra uppfylli þeir ákveðin skilyrði.
Samningskröfur eru af skuldum sem ekki eru tryggðar með veðum. Þannig verði hægt að semja um að skuldir verði felldar niður að hluta eða í heild eða lengt í lánum. Með því verði komið í veg fyrir að fólk verði gjaldþrota. Annað frumvarp er til meðferðar í þinginu en samkvæmt því verður einnig hægt að leita greiðsluaðlögunar vegna veðkrafna, til dæmis húsnæðislána.
Alþingi samþykkti jafnframt ný lög um ábyrgðarmenn með 32 samhljóða atkvæðum. Með lögunum á að draga úr vægi ábyrgðar við lánveitingar og stuðla að því að lán séu veitt og miðuð við greiðslugetu lántakanda og hans eigin tryggingar frekar en ábyrgðarmanns.(ruv.is)
Það er góður áfangi að samþykkja lög um greiðsluaðlögun,sem fyrst og fremst felst í því að fresta uppboðum og gjaldþrotum.En það er ekki nóg. Það þarf einnig að koma til móts við þá,sem ekki ráða við greiðslur af lánum sínum en eru ekki komnir að uppboði eða gjaldþroti.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.