Fimmtudagur, 9. apríl 2009
Góð stefna Samfylkingar í velferðarmálum
Á nýafstöðnum landsfundi Samfylkingarinnar var eftirfarandi samþykkt um velferðarmál:
Samfylkingin leggur ríka áherslu á velferð fjölskyldunnar, að standa vörð um heimilin og heilbrigt líf.
Í ríkisstjórn hefur Samfylkingin lagt áherslu á að rétta hlut aldraðra og öryrkja gagnvart almannatryggingum, tryggja aðgengi allra að heilbrigðiskerfinu óháð efnahag og setja af stað aðgerðaáætlun um málefni barna og auka þannig stuðning samfélagsins við börn og barnafjölskyldur. Velferðarumbætur Samfylkingarinnar leiddu til þess að persónuafsláttur, barnabætur og vaxtabætur voru hækkaðar, til hagsbóta fyrir þá tekjuminni, og lífeyrisþegum tryggður verðtryggður lífeyrir. Þeir sem minnst hafa milli handanna búa nú að velferðarumbótum Samfylkingarinnar frá undanförnum árum.
Mikilvægasta verkefni velferðarkerfisins við núverandi aðstæður er að vernda hag og stöðu barna og fjölskyldna. Tryggja þarf jafnan rétt og aðgengi að lífsgæðunum sem samfélagið býður upp á. Markmiðið er að tryggja að engar fjölskyldur búi við fátækt.
Mikilvægt er að allir hafi möguleika á öruggu húsnæði fyrir sig og fjölskyldu sína. Bregðast þarf við skuldavanda heimilana og tryggja þeim nauðsynlegan stuðning til að mæta þeim tímabundnu áföllum sem nú blasa við. Velferðarbrú heimilana verður að aðlaga greiðslubyrði aðstæðum hvers og eins og afskrifa skuldir þar sem það er nauðsynlegt. Þá þarf að tryggja lágmarksframfærslu hvers einstaklings þar sem tekið er tillit til tekna, eigna og skulda.
Áhersla verði lögð á heilsueflingu sem forvörn gegn sjúkdómum og leið til að auka lífsgæði fólks. Markmið allra endurbóta á heilbrigðs- og almannatryggingakerfinu á að vera jöfnuður, gott aðgengi, gæði, öryggi og hagkvæmni.
Þetta er góð stefna Samfylkingarinar í velferðarmálum.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.