Laugardagur, 11. apríl 2009
Við þurfum félagshyggjustjórn eftir kosningar
Það urðu merk umskipti í íslenskum stjórnmálum, þegar minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna var mynduð með hlutleysi Framsóknar og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar fór frá. Sjálfstæðisflokkurinn hafði verið við völd óslitið í 18 ár.Mörgum þótti það meira en nóg.
Ég tel mikilvægt, að félagshyggjuflokkarnir verði áfram við völd eftir kosningar.Samfylking og VG eru félagshyggjuflokkar. Framsókn hefur breytt um stefnu með nýrri forustu og er nú á ný félagshyggjuflokkur einnig. Ég fagna breyttri stefnu Framsóknar og vænti þess,að sá flokkur geti starfað með félagshyggjuöflunum í landinu að framkvæmd félagslegra úrræða til þess að auka jöfnuð og réttlæti í þjóðfélaginu.Eftir bankahrunið er mjög mikilvægt að standa vörð um velferðarkrefið og styrkja það eftir því sem kostur er á til þess að auðvelda fólki að takast á við versnandi lífskjör í kjölfar fjármálakreppunnar.
Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hafði byrjað að efla velferðarkerfið,m.a. með því að bæta kjör aldraðra og öryrkja lítillega.Byrjað var á því að bæta kjör þeirra,sem voru úti á vinnumarkaði með því að draga úr tekjutengingum.Það kom sér mjög vel fyrir þá sem voru úti að vinna.Þeir þurftu þá ekki að sæta eins miklum skerðingum á tryggingabótum vegna atvinnutekna og áður hafði verið .Einnig var mjög mikils virði, að afnumin var skerðing vegna tekna maka. Það var mannréttindamál að koma þeirri lagfæringu í framkvæmd. En það var lítið sem ekkert byrjað að bæta kjör þeirra aldraðra og öryrkja sem ekki voru á vinnumarkaði.Jóhanna Sigurðardóttir setti að vísu sem félagsmálaráðherra reglugerð um lágmarksframfærslu lífeyrisþega. Var þessi lágmarksframfærsla í fyrstu ákveðin 150 þús. á mánuði fyrir skatta hjá eintaklingum og síðan var hún ákveðin 180 þús.kr. fyrir skatta eða 150 þús kr. eftir skatta.Þetta var dágott fyrsta skref en alltof lágt ákveðið.Samfylkingin boðaði fyrir alþingiskosningar 2007,að lífeyrir aldraðra ætti að vera sá sami og meðaltals neysluútgjöld einstaklinga samkvæmt könnun Hagstofunnar. Í desember sl. nam sá kostnaður 282 þús kr. á mánuði á einstakling án skatta miðað við 150 þús. kr. lágmarksframfærslutryggingu félagsmálaraðuneytis.Það vantar .því 132 þús. kr. á mánuði upp á að marki Samfylkingar frá 2007 sé náð. Að visu ætlaði Samfylkingin að ná þessu mark i áföngum. Aðstæður eru breyttar vegna fjármálakreppunnar,Það er strax byrjað að skerða kjör aldraðra að raungildi til.En finna verður leiðir til þess að bæta kjör aldraðra.Þeir lifa ekki af þeim lífeyri sem skammtaður er í dag. Ef til vill má draga úr skerðingu tryggingabóta vegna tekna úr lífeyrissjóði. Einnig má draga úr skattlagningu lífeyrissjóðstekna og síðast en ekki síst má hækka skattleysismörkin en þau bæta verulega kjör láglaunafólks og lífeyrisþega.Hækkun skattleysismarka,sem fyrri stjórn ákvað,var of lítil.
Ef félagshyggjuflokkarnir verða áfram við völd verður væntanlega unnt að auka jöfnuð í þjóðfélaginu,m.a. með auknu réttlæti í skattamálum. Það á að hækka skatta á þeim sem hafa góðar og háar tekjur en lækka þá á þeim sem hafa lágar tekjur.Það mætti taka hátekjuskatt upp á ný. Samfylking og VG geta væntanlega orðið sammmála um það að innkalla allar veiðiheimildir. Báðir flokkarnir hafa sett fram hugmyndir í þá veru. Nú er komið að framkvæmd þeirra hugmynda.Samfylkingin getur ekki lengur ítt þessu stóra hagsmunamáli fólksins í landinu á undan sér.Það er orðin almenn krafa í landinu að kvótakerfinu verði umbylt og réttlátt kerfi reist á grunni þess gamla.Mannréttindanefnd Sþ. kvað upp úr um það, að kerfið væri ósanngjarnt og framkvæmd þess fæli í sér mannréttindabrot. Þetta er blettur á þjóðinni. Þann blettt verður af þvo af okkur.
Ef Samfylking og Vinstri græn ætla að halda áfram stjórnarsamstarfi eftir kosningar, hugsanlega með aðild Framsóknar að slíkri stjórn verður stjórnin að marka róttæka stefnu til hagsbóta fyrir vinnandi fólk í landinu og allan almenning.Það verður erfitt að vinna að umbótum á meðan þjóðin er að vinna sig út úr kreppunni en það er unnt að dreifa byrðunum réttlátlega og bæta kjör þeirra,sem höllustum fæti standa,láglaunafólks,aldraðra og öryrkja.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Já Björgvinn, en ekki stjórn með VG því þeir eru ekki félagshyggjumenn
haukur gunnarsson (IP-tala skráð) 11.4.2009 kl. 18:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.