Versta kreppa Sjálfstæðisflokksins síðan 1987

Hremmingar Sjálfstæðisflokksins nú eru þær alvarlegastu sem hann hefur lent í í rúm 20 ár og jafnvel frá upphafi. Þetta segir Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði. Það stefni í hörmulegan kosningaósigur hjá flokknum, að hann einangrist í íslenskri pólitík og heiðarleiki hans verði dreginn í efa.

Gunnar Helgi segir að Sjálfstæðisflokkurinn neyðist til að svara spurningunni um það hvað peningarnir voru að gera til Sjálfstæðisflokksins nokkrum dögum áður en lög um fjármál stjórnmálaflokkanna tóku gildi, og nokkrum mánuðum áður en að fulltrúar flokksins komu að fyrirtækinu REI sem var ábatasamt  fyrir þá aðila sem voru að gefa flokknum þessa fjármuni. Það er spurning sem engin leið að flokkurinn komist hjá að svara.

Gunnar Helgi segir að ef Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki svarað þessu með trúverðugum hætti viðist engar líkur á því að hann nái sér í kosningabaráttunni og augljóst að þá eigi hann enga leið inn í ríkisstjórn. Flokkurinn virðist nú þegar loga af innbyrðis illdeilum og upplýsingarnar sem nú eru fram komnar virðast því koma af stað stríði innan flokksins sem snúist um mismunandi arma hans - og sást glitta í í REI-málinu.

"Þetta virðist vera einhvers konar framhald af því þar sem ákveðinn hluti borgarstjórnarflokksins snérist gegn Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni borgarstjóra og ýmsir aðilar sem hafa verið honum tengdir eða taldir tengdir honum hafa komið við sögu þessa máls, Geir Haarde, Andri Óttarsson og Guðlaugur Þór", segir Gunnar.

Aðspurður hvort að flokkurinn hafi átt í einhverjum ámóta erfiðleikum og núna segir hann þetta annars eðlis en til dæmis klofningurinn 1987 þegar flokkurinn fór lægst og fékk 27% atkvæða. Þá varð klofningur milli Alberts Guðmundssonar og Sjálfstæðisflokksins.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist tæp 26% í nýjustu könnun Gallups.

"Það er erfitt að sjá hvernig hliðstæð atburðarrás gæti átt sér stað núna. Það breytir ekki því að flokkurinn virðist vera að stefna í einhverja sína verstu útkomu frá upphafi. Það má segja að þessi kreppa Sjálfstæðisflokksins núna er sú alvarlegasta sem hann hefur lent í allavega frá 1987 þegar Albert klauf flokkinn og kannski sú alvarlegasta frá upphafi. Þetta fer eftir því hvernig flokkurinn spilar úr þessu en það virðist stefna í það að flokurinn bæði einangrist, lendi í hörmulegum kosningaósigri og að heiðarleiki hans sé dreginn í efa. Eins margir slæmir hlutir á sama tíma og hægt er að að hugsa sér fyrir stjórnmálaflokk", segir Gunnar Helgi. (ruv.is)

Sennilega er mat Gunnars  Helga  rétt.Að vísu koma saman áhrif bankakreppunnar og styrkjamálsins.Hvort tveggja lendir með fullum þunga á Sjálfstæðisflokknum.

 

Björgvin Guðmundsson

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband