Þriðjudagur, 21. apríl 2009
60+: Sett verði 100 þús.kr. frítekjumark vegna tekna úr lífeyrisssjóði
60 + ,stjórn eldri borgara í Samfylkingunni hefur opnað heimasíðu.Þar segir svo um málefni eldri borgara í aðdraganda kosninga:
Stjórnin gerir sér grein fyrir því, að þótt margt þurfi að lagfæra í málefnum eldri borgara, þá eru aðstæður í þjóðfélaginu þannig, að umtalsverðir fjármunir verða ekki sóttir í sjóði landsmanna á næstunni. Engu að síður er rétt að halda til haga áherslum og baráttumálum 60+.
Þessar áherslur eru helstar:
- Stefnt verði að því, að skerðing á lífeyri aldraðra frá almannatryggingum, vegna tekna úr lífeyrissjóðum, verði afnumin í áföngum. Í fyrsta áfanga verði sett 100 þúsund króna frítekjumark á mánuði vegna tekna úr lífeyrissjóðum. Einnig að tekjuskattur af greiðslum úr lífeyrissjóðum verði lækkaður í 10 af hundraði og sæti sömu skattlagningu og fjármagnstekjur.
- Þá er það markmið 60+ að lífeyrir frá almannatryggingum verði hækkaður umtalsvert. Stefnt verði að því, að hjá öldruðum einstaklingum jafngildi hann neysluútgjöldum, samkvæmt könnun Hagstofu Íslands á hverjum tíma. Einnig yrði það mikil kjarabót fyrir eldri borgara ef skattleysismörk yrðu hækkuð.
- Nú ríkir mikið og vaxandi misrétti í greiðslum á makalífeyri frá lífeyrissjóðum. Nauðsynlegt er að stefna að því, að lífeyrisréttindi verði sameiginleg eign hjóna, og réttindi ekki skert eða felld niður við fráfall þess, sem þeirra hefur notið.
- Lyfjakostnaður eldri borgara hefur hækkað verulega á undanförnum misserum. 60+ telur að betur þurfi að standa vörð um hæfilegan lyfjakostnað eldri borgara.
- Stjórn 60+ leggur mikla áherslu á að heimaþjónusta og heimahjúkrun verði forgangsverkefni í þágu eldri borgara. Allt verði gert til að gera þeim kleift að dvelja í eigin húsnæði eins lengi og kostur er. Á þann hátt verða lífsgæði eldri borgara meiri og betri og þessi stefna felur í sér umtalsverðan sparnað í heilbrigðiskerfinu.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:31 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.